Viðskipti innlent

Gjaldheimta í ferðaþjónustu eins og í Villta vestrinu

Heimir Már Pétursson skrifar
Þingmenn töluðu um að Villta vestrið og gullgrafaraæði ríkti varðandi gjaldttöku af ferðamönnum á Alþingi í dag. Umhverfisráðherra segir mikilvægt að almannaréttur fari ekki í uppnám vegna þessara gjaldtöku.

Formaður Vinstri grænna hóf sérstakar umræður um þetta flókna úrlausnarefni á Alþingi í dag og brýndi fyrir umhverfisráðherra að huga þyrfti að almannarétti þegar kæmi að gjaldtöku á ferðamannastöðum og við náttúruperlur landsins. Hún fór allt aftur til Rómverja og Jónsbókar máli sínu til stuðnings.

Þar vísaði Katrín Jakobsdóttir til þess að réttur almennings til að fara um og njóta náttúrunar og víðerna hefði verið tryggður öldum saman í ríkjum heims hvort sem land væri í eigu einkaaðila eða ríkis. Þetta hefði endurspeglast í íslenskum lögum um langa hríð.

„Nú hins vegar erum við að horfa upp á aðgerðir sem má kalla einhvers konar Vilta vestur þar sem landeigendur eru farnir að hefja hér gjaldtöku. Jafnvel á landi sem er ekki alfarið í þeirra eigu. Þar má nefna auvitað geysissvæðið þar sem ríkið er auðvitað líka einn af landeigendum og það hafa staðið þar deilur yfir,“ sagði Katrín.

Þá séu sveitarstjórnarmenn víða farnir að tala um gjaldtöku t.d. Seljalandsfoss Skógarfoss og fleiri staði. Allir væru sammála um að tryggja þurfti fé til uppbyggingar en hún hefði fyrirvara við náttúrupassa sem stjórnvöld væri að skoða út frá almannarétti.

„Og væntanlega þarf maður þá að vita hvenær maður þarf að hafa passann þegar maður stoppar á þjóðveginum og hversu langt mðaur má vera frá náttúru,“ segir formaður Vinstri grænna.

Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra sagði menn nú leita leiða í þessum efnum og gjæta þyrfti þess að ekki myndaðist gjá milli ferðaþjónustunnar og almennings í landinu.

„Ég legg til að við reynum saman að finna sem fyrst sanngjarna leið til að afla þeirra fjármuna sem að þarf og hefjast handa við það verkefni. Þar má almannaréttur ekki verða settur í uppnám og framkvæmdaáætlun um uppbygginguna er þar miðlægt plagg í þeirri vinnu,“ sagði umhverfisráðherra.

Katrín Júlíusdóttir varaformaður Samfylkingarinnar lagði áherslu á að samkomulag tækist um form gjaldtökunnar án þess að gengið yrði á almannaréttinn.

„Og það er ekkert hlaupið að því. Ekki síst í ljósi þessa ástands sem er upi núna. En það ríkir bara hálfgert gullgrafaraæði í þessum bransa, ef svo má að orði komast,“ sagði Katrín Júlíusdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×