Erlent

Barack Obama: „Bandaríkin munu standa þétt við bakið á Úkraínumönnum“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. vísir/afp
„Bandaríkin munu standa þétt við bakið á Úkraínumönnum,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti í yfirlýsingu í Hvíta húsinu fyrir skömmu.

Greint var frá því í dag að Evrópusambandið hafi sett farbann á 21 embættismann í Rússlandi og í Úkraínu og kyrrsett eignir þeirra eftir að þingið á Krímskaga lýsti formlega yfir sjálfstæði frá Úkraínu. Kosið var um málið í gær og vildu 97 prósent þeirra sem kusu að Krím verði hluti af Rússlandi.

Þá hafa bandarísk yfirvöld einnig fryst eignir 11 einstaklinga sem sagðir eru bera ábyrgð á atkvæðagreiðslunni og sett á þá farbann. Einn þeirra er Viktor Janúkovítsj, fyrrverandi forseti Úkraínu.

Obama sagði í yfirlýsingunni að Bandaríkin myndu aldrei viðurkenna úrslit kosninganna, en kosningarnar eru ólöglegar að hans mati og Evrópusambandsins. Þá boðaði hann frekari refsiaðgerðir ef Rússar dragi ekki herlið sitt til baka frá Krímskaga.

Þá sagði hann að Bandaríkin myndu halda áfram að gera Rússum það ljóst að frekari afskipti muni einangra Rússland og veikja stöðu landsins í alþjóðasamfélaginu.

William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, segir refsiaðgerðirnar ekki endilega til frambúðar. Alexei Navalní, leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar, segir á Twitter að refsiaðgerðirnar séu hlægilegar. Obama hafi einungis gert sig að athlægi og „hvatt glæpamennina áfram“.

Yfirlýsing frá Hvíta húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×