Innlent

Kostnaður við skýrsluna alltof mikill

Elimar Hauksson skrifar
Kostnaður við skýrslu um fall sparisjóðanna mun að öllum líkindum kosta kosta um 600 milljónir króna. Það er nokkuð hærri upphæð en núvirtur kostnaður við alla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, segir afmarka hefði þurft kostnað að baki skýrslunni mun betur og að það sé óskiljanlegt að málið hafi haldið áfram án þess að Alþingi hafi gripið í taumana.

„Það sem á að gera þegar menn eru að ákveða að rannsaka þetta, sem er auðvitað sjálfsagt mál, bæði eðlilegt og nauðsynlegt, þá verða menn að ákveða hvað á að rannsaka og hvað það á að kosta. Það verður að fara saman,“ segir Guðlaugur og bætir við að menn geti ekki samþykkt tillögur í þingsal og vonað að framkvæmdin verði ekki of dýr.

Þingmenn eru þó ekki sammála um að hægt hafi verið að marka verkefninu þröng skilyrði vegna óvissu um ástæður að baki falli sjóðanna. Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að samanburður á kostnaði skýrslunnar við efnahagsreikninga sparisjóðanna í dag sé til dæmis ekki réttmætur enda sé andlag rannsóknarskýrslunnar eigið fé sparisjóðanna þegar þeir féllu.

„Ég tel mjög mikilvægt að rannsaka hvernig hrun sjóðanna bar að. Við þurfum að vita hvernig hlutirnir gerðust og hvað gerðist því ef við höfum þessi mál opin þá mun það valda deilum svo áratugum skipti,“ segir Vilhjálmur og bætir við að það sé ekki auvelt að afmarka tíma og fjármagn í skýrslu sem þessa.

„Auðvitað er það gott að geta markað svona verkefnum tíma og horft í kostnað en ég held að allsherjarnefnd og Alþingi hafi alls ekki verið í standi til þess að afmarka þetta verkefni á sínum tíma því menn vissu alls ekki um hvað málið snerist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×