Innlent

Snjóbretta- og tónlistarhátíð á Akureyri

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Gámastökkinu í fyrra.
Frá Gámastökkinu í fyrra. Mynd/Aðsend
Snjóbretta- og tónlistarhátíðin AK Extreme verður haldin um næstkomandi helgi á Akureyri. 3. – 6. Apríl. Helstu atvinnumenn Íslands munu keppa þar í Big Jump eða Gámastökki Eimskips í gilinu á laugardagskvöldið.

Þeir eru Halldór Helgason, Eiríkur Helgason, Guðlaugur Hólm Guðmundsson og Einar Stefánsson. Einnig munu David Pils og Max Glatzl, snjóbrettakappar frá Austurríki, keppa í greininni. Samanlagt munu 20 færustu snjóbrettamenn Íslands keppa um AK Extreme titilinn og hringinn.

Í tilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar segir að boðið verði upp á öfluga tónleikadagskrá yfir helgina og munu til dæmis Brain Police, Sólstafi, Highlands, Vök, Úlfur Úlfur, Emmsjé Gauti og Logi Pedro koma fram.

Á síðasta ári komu um 7.000 manns saman í gilinu til að fylgjast með Big Jump keppninni og vilja aðstandendur keppninnar hvetja alla til að mæta á svæðið. Þá verður einnig hægt að horfa á keppnina í beinni útsendingu á N4 sjónvarpsstöðinni og á Vísir.is.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu hátíðarinnar akx.is og á Facebook síðu keppninnar.

Hér að neðan má sjá myndband frá hátíðinni í fyrra.

Um 7.000 manns fylgdust með Gámastökkinu í fyrra.Mynd/Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×