Handbolti

Valsmenn fastir í Varmahlíð - búið að seinka leiknum aftur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Stefánsson og lærisveinar hans gætu þurft að gista í Varmahlíð.
Ólafur Stefánsson og lærisveinar hans gætu þurft að gista í Varmahlíð. Vísir/Daníel
Leik Akureyrar og Vals í 18. umferð Olís-deildar karla í handbolta sem átti að fara fram í KA-húsinu kl. 16.00 í dag hefur verið seinkað enn og aftur.

Leikurinn átti upphaflega að fara fram á fimmtudagskvöldið en var síðar frestað fram á föstudag og svo þar til dagsins í dag. Enn er möguleiki á að leikurinn verði spilaður en það stendur tæpt.

Valsmenn eru komnir í Varmahlíð þar sem þeir eru búnir að leigja sér sumarbústaði. Þeir eru í óvissu um framhaldið en Öxnadalsheiðin verður ekki opnuð fyrr en seinna í dag.

„Ég veit ekki hvað við verðum lengi hérna eða hvort við endum á því að gista. Heiðin á víst ekki að opna fyrr en eftir þrjá tíma,“ sagði Hlynur Morthens, markvörður Vals, í samtali við Vísi.

Róbert Geir Gíslason, mótastjóri HSÍ, staðfesti í samtali við Vísi að leikurinn færi ekki fram kl. 16.00 þar sem heiðin opnar ekki fyrr en eftir þann tíma.

Hann sagðist ætla vera í betra sambandi við Valsmenn upp á framhaldið og taka á endanum ákvörðun um hvort leikið yrði í kvöld eða á morgun.

Nú þegar er búið að fresta leik Vals og KA/Þórs í Olís-deild kvenna sem átti að fara fram í Austurbergi í dag en norðankonur komast ekki til Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×