Lífið

Jón Arnór töframaður áfram ásamt Arnari og Agnesi

Spennan var mikil í kvöld þegar sjö atriði bitust um að verða á meðal þeirra sem keppa um milljónirnar tíu sunnudagskvöldið 27. apríl í hæfileikakeppninni Ísland got Talent.

Keppni kvöldsins var sýnd út í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2. Í fyrsta sinn voru það áhorfendur heima í stofu sem höfðu sitt að segja í símakosningu um það hvað atriði fengju brautargengi ásamt dómnefndinni.

Hinn sjö ára töframaður Jón Arnór Pétursson fór á kostum, líkt og í undankeppninni, og tryggði sér sæti í úrslitakvöldinu. Spennan var svo rafmögnuð þegar dómnefndin skar úr um hvort tónlistarfólkið Arnar Logi Hákonarson og Agnes Sólmundsdóttir eða dansparið efnilega Elvar Kristinn Gapunay og Sara Lind Guðnadóttir kæmust áfram ásamt Jóni Arnóri.

Fór svo að dómnefndin greiddi Arnari og Agnesi þrjú atkvæði gegn einu atkvæði dansparsins tólf ára sem þurfti því að halda heim á leið. Arnar og Agnes sögðu í samtali við Auðunn Blöndal allt eins hafa átt von á því að komast í úrslitin. Jón Arnór sagði hins vegar að það hefði komið sér á óvart.

Að viku liðinni kemur svo í ljós hvaða tvö atriði tryggja sér þátttökuréttinn í úrslitakvöldinu og möguleikann á tíu milljóna króna peningaverðlaununum.

Að ofan má sjá frammistöðu Jóns Arnórs úr undankeppninni. Frammistöðu Arnars og Agnesar úr undankeppninni má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×