Handbolti

Kristín: Þetta var orðið hættulegt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristín í leiknum í kvöld.
Kristín í leiknum í kvöld. vísir/valli
Kristín Guðmundsdóttir, leikstjórnandi Vals, var ekki sátt við frammistöðu dómaraparsins í kvöld.

„Mér fannst við fá tvær mínútur fyrir allt sem við gerðum hérna í lokin,“ sagði Kristín við Vísi eftir leikinn.

„En þetta var vissulega skrýtinn leikur. Kannski voru þær svona ægilega góðar í vörn en það var bara erfitt að spila þegar það er endalaust verið að rífa í mann í sókninni og það er ekkert dæmt.“

„Þetta var orðið hættulegt. Þeim var alveg sama hvernig þær brutu - þær komust alltaf upp með það,“ bætti Kristín við.

Þess má geta að Anna Úrsúla Guðmundsdóttir fór meidd af velli í síðari hálfleik eftir að brotið var á henni. Hún kom ekki meira við sögu.

Kristín segist þó sátt við margt í leiknum og að það megi nýta margt fyrir framhaldið.

„Við erum nú búnar að spila tvo leiki eftir nokkuð langa pásu og ég finn strax mun á okkur í kvöld miðað við síðasta leik. Við náðum svo að gera heilmikið í kvöld sem mun koma sér vel í næstu leikjum.“

Valur mætir ÍBV í undanúrslitunum og Kristín segir að leikmenn Vals mæti fullar sjálfstrausts til leiks.

„Mér finnst vörnin okkar það góð í kvöld. Í raun finnst mér að við hefðum átt að vinna þennan leik með fimmtán marka mun en ég tek það ekki af Haukum að þær eru með hörkulið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×