Handbolti

Umfjöllun: Ísland - Austurríki 27-36 | Stórt tap í Ólafsvík

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Vísir/Stefán
Ísland steinlá í seinni vináttulandsleiknum gegn Austurríki á tveimur dögum 36-27 í Ólafsvík í kvöld. Austurríki var 17-13 yfir í hálfleik en gestirnir voru mikið betri allan leikinn.

Það er afskaplega fátt jákvætt hægt að taka út úr leiknum hjá Íslandi. Alexander Petersson, Aron Pálmarsson, Þórir Ólafsson og Aron Rafn Eðvarðsson gátu ekki verið með í dag og náð þeir sem komu inn fyrir þá ekki grípa tækifærið sem gafst.

Vörnin var slök, sóknarleikurinn kaflaskiptur og liðið lengi að skila sér til baka. Baráttuna vantaði og virkuðu Austurríkismenn mun hungraðari í sigur.

Austurríki náði forystu strax í upphafi leiks og lét hana aldrei af hendi. Ísland náði að minnka muninn í tvö mörk þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum en þá hóf Patrekur að nota sjö menn í sóknarleiknum og það réð íslenska vörnin illa við.

Austurríki fékk dauðafæri í nánast hverri sókn og hefði tapið getað verið enn stærra ef Björgvin Páll Gústavsson hefði ekki varið fjölda þeirra í leiknum.

Íslenska liðið er mjög sterkt en má greinilega illa við því að missa lykilmenn, sérstaklega þegar þeir sem koma inn ná ekki upp þeirri einbeitingu og baráttu sem þarf í alþjóðlegum handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×