Sport

Áhorfandi greip boltann og sýndi miðfingurinn | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Matt Adams, leikmaður hafnaboltaliðsins St. Louis Cardinals, lét áhorfanda úr röðum Cincinatti Reds hirða af sér boltann í leik liðanna í gær sem var frekar neyðarlegt fyrir Adams.

Leikmaður Reds sló boltann til of langt til hægri en þó hann væri á leið upp í stúku gat Adams tekið hann úr leik með því að grípa boltann. Annars væri höggið dæmt ógilt og Reds-leikmaðurinn héldi áfram að slá.

Adams gerði heiðarlega tilraun til að teygja sig á eftir boltanum upp í stúku en stuðningsmaður heimamanna í Cincinatti greip boltann á undan honum og gerði sínum manni sem var að slá mikinn greiða.

Áhorfandinn stráði síðan salti í sár Adams með því að sýna honum miðfingurinn. Ekkert sérstaklega huggulegur.

Sá hlær þó best sem síðast hlær því Adams, sem stendur ávallt vaktina í 1. höfn hjá Cardinals, átti frábæran leik. Hann komst þrívegis í höfn í þeim fimm tilraunum sem hann fékk til að slá og skilaði tveimur hlaupum, eða stigum, fyrir sína menn.

St. Louis vann leikinn, 7-6, og lék Matt Adams lykilhlutverk í sigrinum. Stuðningsmaður Cincinatti sem sýndi honum fingurinn þurfti að fara heim með skottið á milli lappanna.

Þetta skondna atvik má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×