Innlent

„Skaði sem ekki verði bættur“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis hf. segir að engin samfélagsleg ábyrgð sé fólgin í því að halda áfram rekstri sem ekki gangi. Fyrirtækið áformar að hætta starfsemi sinni á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri. Grafalvarlegt mál segja þingmenn.

Um 150 starfsmenn starfa hjá Vísi hf í byggðarlögunum þremur sem um ræðir. Þeim hefur öllum verið boðin vinna hjá fyrirtækinu í Grindavík þegar starfsemin flyst alfarið þangað. Málið var rætt á Alþingi í dag.

„Þetta eru grafalvarleg tíðindi fyrir þessi byggðarlög,“ segir Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Lilja Rafney Magnúsdóttir tók í svipaðan streng: „Mér þykir þetta vera döpur tíðindi hjá þessu fyrirtæki sem hefur fengið meðgjöf í formi byggðarkvóta á þessum stöðum í gegnum árin.“

Endurskoða ákvörðun sína

Stéttafélagið Framsýn á Húsavík krefst þess að Vísir hf. endurskoði áform sín. Hætti fyrirtækið starfsemi sinni þá sé það skaði sem ekki verður bættur. Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf., segir að fyrirtækið sé tilbúið að endurskoða ákvörðun sína.

„Við værum auðvitað ekki að fara fram með þessi áform nema að vera búnir að fara vel í gegnum málið. Við ætlum að gefa þessu mánuð til að taka endanlega ákvörðun,“ segir Pétur Hafsteinn.

Pétur segir að aðstæður á markaði kalli eftir breytingum í starfsemi fyrirtækisins. „Það er engin samfélagsleg ábyrgð fólgin í því að halda áfram einhverju sem ekki gengur. Samfélagslega ábyrgðin felst í því að gera breytingar sem nauðsynlegar eru. Við ætlum að gera allt sem við getum og kunnum til þess að þessar breytingar verði af hinu góða fyrir sem flesta. Ég er nokkuð bjartsýnn á það að í raun þurfi ekki að koma til neinna uppsagna,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson.

Nánar í myndbandinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×