Innlent

Á erfitt með að setja sig í spor þeirra sem kveiktu í

Bjarki Ármannsson skrifar
Brunaskemmdir á hurðinni eru talsverðar.
Brunaskemmdir á hurðinni eru talsverðar. Mynd/Svavar Alfreð Jónsson
„Það kæmi mér ekki á óvart ef það væri ekki hægt að gera við hana, hún er það illa brunnin,“ segir Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur Akureyrarkirkju. Kveikt var í hurð kirkjunnar nú í nótt og er málið til rannsóknar hjá lögreglu.

Á mynd sem Svavar setti á Facebook-síðu sína í morgun sjást skemmdirnar á hurðinni vel. Hurðin er ekki mjög gömul að sögn Svavars en samt sem áður er tjónið talsvert.

„Þetta er stór og mikil eikarhurð, þannig að þetta er dýrt,“ segir Svavar. Hann bendir á að verknaðinn hefur þurft að skipuleggja vel fram í tímann og segir þetta árás á kirkjuna sjálfa. Hann þorir ekki að segja til um hvort verknaðurinn tengist komandi páskahátíð.

„Ég á mjög erfitt með að setja mig í spor þeirra sem gerðu þetta,“ segir Svavar. „Þetta er allavega ekki fólk sem líður vel.“

Í texta með myndinni biður Svavar Akureyrarbúa um að forðast dómhörku og halda stillingu. Einnig minnist hann orða Jesú úr Biblíunni: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×