Erlent

Hundrað stúlkum rænt í Nígeríu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Íslamistar úr öfgasamtökunum Boko Haram eru grunaðir um að hafa rænt yfir hundrað stúlkum úr skóla í Borno- ríki í norðausturhlusta Nígeru í gær. Þá eru þeir sagðir hafa kveikt í nær hverju húsi í bænum, en á annað hundrað heimila eyðilögðust.

Einnig eru samtökin talin hafa staðið á bakvið mannskæða sprengjuárás í borginni Abuja í gær þar sem rúmlega sjötíu manns létu lífið á fjölmennri strætisvagnastöð, þegar fjöldi fólks var á leið í vinnu frá úthverfum borgarinnar til miðborgarinnar.

Að minnsta kosti 1.500 manns hafa fallið í árásum Boko Haram í þremur ríkjum í norðurhluta Nígeríu það sem af er ári.

Verknaðurinn er lýsandi fyrir öfgasamtökin sem hafa látið mikið að sér kveða síðustu ár og hafa þúsundir fallið í árásum þeirra í landshlutanum, meðal annars á kirkjur og skóla. Samtökin beita sér gegn vestrænum áhrifum og allri menntun með vestrænu sniði.

Fimmtán stúlkum tókst að sleppa úr haldi ódæðismannanna, en voru þær sofandi á heimavist sinni þegar mennirnir réðust til atlögu og földu þær sig í óbyggðum þar til tók að birta.

Bíll mannanna fannst bilaður í óbyggðum og reynt er að rekja slóðina þaðan, en hvorki tangur né tetur hefur fundist af stúlkunum sjálfum, né mönnunum.

Evrópusambandið fordæmdi í dag árásir Boko Haram og lýsti Catherine Ashton, utanríkis- og öryggismálastjóri ESB, því yfir að ESB-löndin 28 standi með Nígeríu í baráttunni gegn vaxandi tíðni hryðjuverka.



vísir/afp
vísir/afp
vísir/afp
vísir/afp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×