Innlent

Faðir barnsins dæmdur í fimm ára fangelsi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Scott James Carcary fékk fimm ára fangelsisdóm.
Scott James Carcary fékk fimm ára fangelsisdóm. Vísir/stefán
Scott James Carcary var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að hafa orðið valdur að dauða fimm mánaða dóttur sinnar í mars á síðasta ári.  Frá dóminum dragast átta dagar sem hann sat í gæsluvarðhaldi.

Þá er honum gert að greiða móður barnsins þrjár milljónir króna auk vaxta og allan sakakostnað.

Ekki liggur fyrir hvort málinu verður áfrýjað.

Scott var ákærður var fyrir stórfellda líkamsárás með því að hrista dóttur sína svo harkalega að hún hlaut blæðingu í heila sem leiddi til dauða hennar.

Grunur um að svipað atferli hafi átt sér stað áður

Atvikið átti sér stað hinn 17. mars 2013 þegar maðurinn var einn heima með dóttur sinni. Hann var í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald og í framhaldinu af því úrskurðaður í farbann þann 26. mars sama ár. Farbannið var svo framlengt í þrígang á meðan rannsókn málsins stóð yfir.

 

Barnið var flutt meðvitundarlaust með sjúkrabíl á Landspítalann daginn örlagaríka og lést þar nokkrum klukkustundum síðar.

Auk sýnilegs áverka á heila barnsins, þá greindust sjáanlegar blæðingar í andliti, kinnum og höku, upphandleggjum brjóstkassa, baki og báðum fótleggjum. Blæðingarnar voru misdjúpar og voru rispur á húð á fótleggjum en ekki djúp sár.

Blæðingarnar voru mjög greinilegar á milli rifbeina. Við krufninguna fundust eldri beináverkar á rifbeini og fótleggjabeini og vöktu beinbrotin grun um að svipað atferli hafi átt sér stað áður.

Þýskur réttarmeinafræðingur sem bar vitni í málinu hinn 13. mars síðastliðinn sagði útilokað að barnið hafi verið hrist óvart, og taldi engar líkur á að gáleysi gæti hafa valdið slíkum áverkum.


Tengdar fréttir

Sakaður um að hafa hrist barn sitt

Aðalmeðferð í máli karlmanns á þrítugsaldri, sem sakaður er um að hafa hrist fimm mánaða dóttur af slíkri hörku að hún lést nokkrum klukkustundum síðar, hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Faðir barnsins yfirvegaður í réttarhöldunum

Faðir barnsins sem sakaður er um að hafa hrist barn sitt til dauða í mars á síðasta ári bar vitni í aðalmeðferð málsins í dag. Hann hafnar sök í málinu.

Öll einkenni "Shaken baby syndrome“

Þýskur réttarmeinafræðingur bar í morgun vitni í máli manns sem er sakaður um að hafa hrist barn sitt til dauða. Preuss taldi, eftir krufningu, að allir áverkar á barninu bentu til þess að það hafi verið hrist til dauða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×