Yfirlýsing frá fréttastjóra Vísis: Sorphirðumenn Reykjavíkur beðnir afsökunar
Í frétt á Vísi í gær var sagt frá því að gerð hafi verið tilraun til innbrots hjá Heiðari Helgusyni, fyrrverandi landsliðsmanni og fjölskyldu hans. Í fréttinni kemur fram að eiginkona Heiðars hafi verið vitni að atburðinum. Í fréttinni var fullyrt að hún hafi borið kennsl á meinta innbrotsþjófa og að þeir hafi verið sorphirðumenn Reykjavíkurborgar.
Fréttin byggði meðal annars á Facebook-færslu vitnisins sem deilt var á netinu í gær. Venjan á Vísi er að að leita staðfestingar á heimildum og var rætt við eiginkonu Heiðars sem staðfesti frásögn sína og sagðist hafa kallað lögreglu til. Í gærkvöldi náði blaðamaður á ritstjórn einnig tali af Bjarna Brynjólfssyni, upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar, sem sagði að líklega byggði málið á misskilningi. Hann taldi rannsókn lögreglu leiða hið rétta í ljós en sagði jafnframt að umræddur starfsmaður hafi verið nýr í starfi og ekki þekkt til á svæðinu: „Líklega fór hann til baka til að ná í lykla og prófa þá hurð.“
Allt þetta hefur komið fram og rétt er að halda því til haga að málið er til rannsóknar hjá lögreglu.
Ritstjórn Vísis harmar ef fréttaflutningur af þessu máli hefur valdið misskilningi og biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem fréttin kann að hafa valdið. Vitaskuld var aldrei ætlunin að þjófkenna saklaust fólk sem í þessu tilfelli eru sorphirðumenn Reykjavíkur. Í þessu samhengi má benda á að í fyrirsögn fréttarinnar felst ótímabær fullyrðing og það harmar Vísir. Sorphirðumenn Reykjavíkur eru hér með beðnir afsökunar.
Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Vísis.
Uppfært kl. 18.00
Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að ekki var um innbrotstilraun að ræða. Í spilaranum efst í fréttinni má heyra upptöku úr Reykjavík síðdegis á Bylgjunni frá því fyrr í dag þar sem farið er yfir málið.
Tengdar fréttir
Sorphirðumenn reyndu að brjótast inn til Heiðars Helgusonar
Mennirnir náðust á myndband og lögreglan er með málið til rannsóknar.
Sorphirðumenn gerðu ekkert rangt
Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að ekki var um innbrotstilraun að ræða í hús Heiðars Helgusonar í höfuðborginni í gær.
„Við erum algjörlega drepin í þessari frétt“
Sorphirðumenn mótmæltu fyrir utan höfuðstöðvar 365. Þeir eru æfir vegna fréttar sem birtist um meinta innbrotstilraun sorphirðumanna inn til Heiðars Helgusonar.
Segir ólíklegt að um innbrotstilraun hafi verið að ræða
Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, segir að vonandi muni rannsókn lögreglunnar sýna fram á að um misskilning sé að ræða.