Innlent

Gjaldkeri starfsmannafélags viðurkennir fjárdrátt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vísir/Valli/Pjetur
Lögreglan á Eskifirði hefur nú til rannsóknar fjárdrátt gjaldkera starfsmannafélagsins Sóma hjá Alcoa-fjarðaráli á Reyðarfirði. Gjaldkerinn hefur gengist við broti sínu að því er kemur fram í tölvupósti til starfsmanna fyrirtækisins. Fjárdrátturinn sem til rannsóknar er hjá lögreglu nemur átta milljónum króna. RÚV greindi fyrst frá málinu síðdegis.

Umræddur gjaldkeri tók við stöðu gjaldkera á aðalfundi félagsins þann 16. maí 2013. Eigið fé Sóma í árslok 2012 var rúmar sextán milljónir króna. Fjárdrátturinn hófst strax í næsta mánuði og stóð yfir þar til í mars síðastliðnum. Við gerð ársreiknings starfsmannafélagsins kom í ljós að ýmislegt var ábótavant. Vaknaði í kjölfarið grunur um fjárdrátt.

„Grunurinn hefur nú verið staðfestur af endurskoðanda og viðkomandi einstaklingur hefur viðurkennt fjárdrátt,“ segir í tölvupósti sem Bjarni Þór Haraldsson, formaður Sóma, sendi starfsmönnum í gær og Vísir hefur undir höndum.

Starfsmannafélagið stefnir að því að fá fjárdráttinn endurgreiddan að fullu. Verið er að vinna að því að lágmarka fjárhagstjón Sóma og hafa einhverjir lausafjármunir þegar verið endurgreiddir.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa-fjarðaráls á Reyðarfirði, sagði í samtali við Vísi að búið væri að ganga frá starfslokum við umræddan gjaldkera. Aðalfundur starfsmannafélagsins fari fram í vor og þá taki nýr gjaldkerfi við störfum. Starfshættir verði við sama tilefni endurskoðaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×