Erlent

Af­nema tíma­bundið réttinn til að óska hælis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tusk segir stjórnvöld hyggjast afnema tímabundið réttinn til að óska hælis.
Tusk segir stjórnvöld hyggjast afnema tímabundið réttinn til að óska hælis. AP/Mindaugas Kulbis

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, hefur kynnt fyrirætlanir stjórnvalda í landinu um að taka tímabundið úr gildi réttinn til að óska hælis.

Samkvæmt alþjóðalögum ber ríkjum að heimila einstaklingum að óska hælis og ekki liggur fyrir hvernig Tusk, fyrrverandi forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, hyggst réttlæta ákvörðunina út á við.

Stjórnvöld í Varsjá hafa sakað Rússland og Belarús um að vopnavæða hælisleitendur með því að beina þeim til aðildarríkja Evrópusambandsins. Bæði ríki hafa neitað ásökununum.

Tusk greindi frá því í dag að hann myndi kynna nýja stefnu stjórnvalda í útlendingamálum þann 15. október næstkomandi en hún myndi meðal annars fela í sér að rétturinn til að óska hælis yrði felldur úr gildi tímabundið.

„Ég mun krefjast þess, krefjast viðurkenningar Evrópu á þessari ákvörðun,“ sagði forsætisráðherrann. Hann sagði ráðamenn í Belarús og Moskvu, og glæpamenn í mansali, hafa misnotað flóttamannastrauminn gegn öðrum Evrópuríkjum og að Pólverjar þyrftu að endurheimta ákvörðunarvaldið yfir því hverjir kæmu inn í landið.

Tusk hefur vikið frá stefnu íhaldsmanna í ýmsum málum eftir að hann komst aftur til valda í fyrra en kom mörgum á óvart með því að halda sig vð stefnumörkun þeirra í útlendingamálum. Skoðanakannanir hafa enda sýnt að mikill meirihluti Pólverja er fylgjandi harðari stefnu í málaflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×