Fótbolti

Halldór Orri nýtti fyrsta alvöru tækifærið vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halldór Orri Björnsson.
Halldór Orri Björnsson. Vísir/Daníel
Halldór Orri Björnsson lagði upp jöfnunarmark Falkenberg-liðsins þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Gefle í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Halldór Orri Björnsson hefur ekki fengið mörg tækifæri hjá Henke Larsson, þjálfara Falkenberg, í fyrstu leikjum sínum með Falkenberg en hann nýtti tækifærið vel í kvöld.

Halldór Orri var aðeins búinn að spila í 35 mínútur í fyrstu sjö leikjum Falkenberg en Henke setti hann inn á völlinn á 56. mínútu í kvöld þegar liðið var 0-1 undir á heimavelli.

Halldór Orri lagði upp jöfnunarmarkið fyrir Carl-Oscar Andersson og átti því mikinn þátt í því að liðið náði í stig í þessum leik.

Arnór Smárason og félagar í Helsingborg tapaði 1-2 fyrir AIK á sama tíma en liðið spilaði manni færri í 70 mínútur og missti íslenska landsliðsmanninn meiddan af velli.  

Arnór var í byrjunarliðinu en þurfti að fara af velli vegna meiðsla á 29. mínútu eða aðeins níu mínútum eftir að liðið missti miðvörðinn Carl Johansson af velli með rautt spjald.

Celso Borges kom AIK í 1-0 á 44. mínútu en David Accam jafnaði fyrir tíu menn Helsingborg á 70. mínútu. Henok Goitom skoraði sigurmarkið á 87. mínútu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×