Sport

Gay dæmdur í árs keppnisbann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tyson Gay varð uppvís að ólöglegri lyfjanotkun.
Tyson Gay varð uppvís að ólöglegri lyfjanotkun. Vísir/Getty
Bandaríski hlauparinn Tyson Gay hefur verið dæmdur í eins árs keppnisbann vegna ólöglegrar lyfjanotkunar.

Gay, sem verður 32 ára í ágúst, féll á lyfjaprófi í júní á síðasta ári og af þeim sökum hafa öll úrslit hans frá 15. júlí 2012 verið dæmd ógild. Honum var m.a. gert að skila silfurverðlaununum sem hann hlaut í 4x100 metra boðhlaupi á Ólympíuleikunum í London 2012.

Bandaríska lyfjaeftirlitið hlífði Gay við tveggja ára banni vegna þess hversu samvinnuþýður hann var. Hlauparinn viðurkenndi brot sitt eftir að hafa fallið á lyfjaprófinu og tilkynnti einnig að hann myndi ekki taka þátt á Heimsmeistaramótinu í Moskvu 2013. Daginn eftir tilkynninguna var styrktarsamningi Gays við Adidas rift.

Gay - sem deilir næstbesta tíma (9,69 sek.) sögunnar í 100 metra hlaupi ásamt Yohan Blake - getur þó snúið fljótlega aftur á hlaupabrautina, en bannið sem hann hlaut er gildandi frá 23. júní 2013, deginum sem hann féll á lyfjaprófinu.

Ekki er langt síðan annar þekktur hlaupari, Asafa Powell, var dæmdur í 18 mánaða keppnisbann fyrir ólöglega lyfjanotkun.


Tengdar fréttir

Powell í átján mánaða bann

Fyrrum heimsmethafi í 100 metra hlaupi, Jamaíkamaðurinn Asafa Powell, var í dag dæmdur í eins og hálfs árs keppnisbann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×