Sjö fulltrúum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og fimm úkraínskum leiðtogum hefur verið sleppt úr haldi aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Þeim hafði verið haldið föngnum í rúma viku.
Vyacheslav Ponomaryov, leiðtogi aðskilnaðarsinna, hefur staðfest að mennirnir tólf séu nú frjálsir ferða sinna.
Mennirnir sem um ræðir eru sagðir vera frá Þýskalandi, Danmörku, Póllandi, Svíþjóð og Tékklandi en aðskilnaðarsinnarnir í austurhluta Úkraínu hafa fullyrt að þeir séu njósnarar.
Markmið ÖSE er að tryggja eflingu öryggis, mannréttinda, lýðræðisog átakavarna í Evrópu. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, ákvað í gær að auka stuðning við eftirlitsverkefni ÖSE í Úkraínu. Munu íslensk stjórnvöld leggja sex milljón króna fjárframlag til verkefnisins auk þess sem ráðuneytið mun senda annan starfsmann til starfa á vegum ÖSE.
Gunnar Bragi sagði í gær að öryggishorfur í Austur-Evrópu hafi farið versnandi í kjölfar ólöglegrar innlimunar Rússlands á Krímskaga og vegna framferðis aðskilnaðarsinna í austurhlutanum.
Ljóst er að dagurinn í dag mun hafa mikil áhrif á þróun mála við landamæri Úkraínu og Rússlands. Úkraínsk stjórnvöld hafa boðað stórsókn gegn aðskilnaðarsinnum sem hliðhollir eru Rússum en þeir hafa hertekið fjölda opinberra bygginga í austurhluta landsins.
Það sló í brýnu milli öryggissveita úkraínska hersins og aðskilnaðarsinna í nokkrum borgum í gær. Fjölmargir slösuðust í átökunum en staðfest tala látinna liggur ekki fyrir. Átök í Odessa leiddu til þess að eldur kom upp í byggingu verkalýðsfélags í borginni. Þrjátíu og sex létust í eldsvoðanum.
Fulltrúum ÖSE sleppt úr haldi

Tengdar fréttir

Aðskilnaðarsinnar sýndu fjölmiðlum eftirlitsmennina
Sjálfskipaður borgarstjóri Slóvíansk segir möguleika á því að mennirnir verði látnir lausir í skiptum fyrir fanga úr þeirra röðum sem eru í haldi Úkraínumanna.

Ræða hertar refsiaðgerðir gegn Rússum
Embættismenn frá Evrópusambandslöndunum hittast í dag til þess að ræða hertar refsiaðgerðir gegn Rússum vegna ástandsins í austurhluta Úkraínu.

Ríkisstjórnin eykur stuðning við ÖSE í Úkraínu
Íslensk stjórnvöld munu leggja sex milljón króna fjárframlag til eftirlistsverkefni ÖSE í Úkraínu auk þess sem ráðuneytið mun senda annan starfsmann til að starfa á vegum ÖSE.

Reyna að fá eftirlitsmenn lausa úr haldi aðskilnaðarsinna
Fulltrúar frá Öse, Örygggis og samvinnustofnun Evrópu eru nú á leið til Úkraínsku borgarinnar Slóvíansk .

Segir gíslatöku eftirlitsmanna á vegum ÖSE óásættanlegt framferði
Staða mála í Úkraínu og samskiptin við Rússland voru meðal umræðuefna á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna sem lauk í Reykholti í dag.