Innlent

Tölva, snjallsími, bíll og rúm upp í fjárdráttinn hjá Sóma

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vísir/Valli/Pjetur
Fyrrverandi gjaldkeri Sóma, starfsmannafélags Alcoa-fjarðaráls á Reyðarfirði, segir stjórnina reyna að klína á sig umtalsvert hærri upphæð en rétt sé að hann hafi dregið að sér.

Starfsmaðurinn fyrrverandi, sem leystur var frá störfum þann 22. apríl, viðurkennir fjárdrátt upp á 4,5 milljónir króna. Hins vegar er hann til rannsóknar hjá lögreglu fyrir fjárdrátt upp á 7,9 milljónir króna. Því séu 3,4 milljónir króna sem stjórn Sóma reyni að bæta við brot hans. „Rétt skal vera rétt,“ segir gjaldkerinn fyrrverandi.

Hann bendir á að þær 3,4 milljónir króna, sem hann neitar að hafa stolið, hafi meðal annars verið notaðar til að kaupa níu spjaldtölvur fyrir skóla á svæðinu auk hátíðar- og veisluhalda fyrir starfsmenn Alcoa fyrir austan á síðasta starfsári. Því sé alrangt að hann hafi stolið peningunum.

Aðspurður hvers vegna því sé haldið fram að hann hafi einnig stolið þessum 3,4 milljónum króna vísar gjaldkerinn fyrrverandi til ósættis milli sín og formanns félagsins þegar þeir sátu saman í stjórn. Tölvukaupin hafi til að mynda verið framkvæmd í óþökk formannsins þótt meirihluti hafi verið fyrir kaupunum á stjórnarfundum.

Í samningi sem gjaldkerinn undirritaði þann 25. apríl afsalar hann sér Hyundai Tucson bifreið árgerð 2008, þriggja sæta leðursófa með rafmagni, rúmi, skrifborðsstól, Sony myndavél auk Apple iPhone og iPad. Umrædda hluti, að frátöldum bílnum sem verður seldur í gegnum viðurkenndan bílasala, hyggst Sómi auglýsa til sölu hjá starfsmönnum Sóma og selja hæstbjóðanda. Andvirðið renni inn á bankareikning Sóma.

Bjarni Þór Haraldsson, formaður Sóma, sagðist í samtali við Vísi ekki vilja tjá sig um málið við ótta af því að spilla rannsókn málsins. Hann ítrekaði að 7,9 milljónir króna væri sú upphæð sem væri til rannsóknar hjá lögreglu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×