Erlent

Ættingjar farþega týndu þotunnar beðnir að yfirgefa hótel

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Kínverskir aðstandendur í Kúala Lúmpúr.
Kínverskir aðstandendur í Kúala Lúmpúr. vísir/afp
Flugfélagið Malaysian Airlines hefur beðið aðstandendur farþega týndu farþegaþotu félagsins að yfirgefa hótel og gistiheimili sem flugfélagið hefur hingað til skaffað.

Þá hefur félagið ákveðið að loka þjónustumiðstöðvum sínum fyrir aðstandendur en gefa þó það loforð að þeir verði látnir vita af gangi mála.

„Við vottum aðstandendum samúð okkar,“ segir í tilkynningu frá flugfélaginu en því er bætt við að þar sem leitin muni líklega taka langan tíma séu aðstandendur beðnir að yfirgefa hótelin og fara heim.

Þá segist flugfélagið ætla að greiða aðstandendunum sérstakar bætur eins fljótt og auðið er, þar sem margar fjölskyldur eigi í fjárhagserfiðleikum vegna hvarfsins. Það muni þó ekki hafa áhrif á greiðslu skaðabóta í framtíðinni.

Farþegaþotan hvarf af ratsjá eftir um klukkustundarlangt flug frá Kúala Lúmpúr þann 8. mars með 239 manns innanborðs. Hún var á leið til Peking.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×