Fótbolti

Sepp Blatter: Mistök að láta Katar fá HM 2022

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter, forseti FIFA.
Sepp Blatter, forseti FIFA. Vísir/Getty
Sepp Blatter, forseti FIFA, hefur nú viðurkennt opinberlega að það hafi verið mistök hjá Alþjóðaknattspyrnusambandinu að láta Katar fá HM í fótbolta árið 2022.

Ákvörðun FIFA hefur mátt þola mikla gagnrýni frá fyrsta degi en Bandaríkin, Ástralía, Suður Kórea og Japan vildu einnig fá að halda keppnina eftir átta ár.

Það hafa komið upp margskonar áhyggjur í tengslum við heimsmeistarakeppnina í Katar en þaðan hafa borist fréttir af slæmum aðstæðum verkamanna í tengslum við byggingu leikvanga og annarra mannvirkja. Svo er það auðvitað hinn óbærilegi sumarhiti í Katar og áhyggjur af því að svona lítið land ráði við svona stóran viðburð.

Blatter viðurkenndi í viðtali við svissnesku sjónvarsstöðina RTS að eftir á að hyggja hafi það verið mistök að leyfa Katar að halda heimsmeistarakeppnina.

„Eins og þú veist þá gera allir mistök," sagði Sepp Blatter og bætti við:

„Tækninefndin var á því að það væri of heitt í Katar til að keppnin færi fram þar en engu að síður fékk Katar yfirgnæfandi meirihluta atkvæða frá framkvæmdanefnd FIFA," sagði Blatter.

Sepp Blatter var þó fljótur að útiloka það að nefndarmenn hefðu þegið mútur. „Nei, ég hef aldrei sagt að atkvæðin hafi verið keypt. Þetta snérist meira um pólitík en peninga," sagði Blatter.


Tengdar fréttir

FIFA: Engin ákvörðun tekin enn um HM 2022

Þrátt fyrir yfirlýsingar eins hæst setta embættismanns Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, hefur engin ákvörðun verið tekin um hvort að HM 2022 í Katar fari fram að vetri til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×