Viðskipti innlent

Norðlenska kaupir eignir Vísis á Húsavík

Samúel Karl Ólason skrifar
Heiðrún Jónsdóttir, stjórnarformaður Norðlenska og Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, undirrita kaupsamninginn.
Heiðrún Jónsdóttir, stjórnarformaður Norðlenska og Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, undirrita kaupsamninginn.
Kjötvinnslufyrirtækið Norðlenska hefur keypt allar fasteignir útgerðarfélagsins Vísis hf. á Húsavík. Í tilkynningu frá fyrirtækjunum segir að um sé að ræða frystigeymslur og vinnslusal fyrirtækisins, skrifstofur, gistiheimili og geymslur, alls um fimm þúsund fermetra.

„Við erum með stórt sláturhús og kjötvinnslu á Húsavík. Vísir er með stóra frysta og í raun hefur verið vöntun á frystiplássi á Norðurlandi. Við höfum þurft að keyra okkar afurðir í frysta út og suður um svæðið,“ segir Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska.

Í tilkynningunni segir að starfsmannastjóri Norðlenska muni í framhaldi af kaupunum ræða við þá starfsmenn, sem ekki fluttu með Vísi í Grindavík, um möguleika þeirra til vinnu hjá félaginu. Norðlenska mun á næstu vikum og mánuðum taka til skoðunar tækifæri á fyrir frekari starfsemi fyrirtækisins á staðnum.

„Við sjáum ákveðin tækifæri með þessu. Fyrst og fremst vildum við eignast frystana en þeir vildu selja allt húsnæðið. Við ákváðum að slá til og horfa til framtíðar. Við höfum ákveðnar taugar til samfélagsins bæði á Húsavík og Akureyri.“

„Það er alveg ljóst að við munum nýta þetta húsnæði og við erum að horfa á ákveðin tækifæri í kringum þetta,“ segir Sigmundur.

Tilkynninguna má lesa í heild sinni hér að neðan:

Kjötvinnslufyrirtækið Norðlenska hefur keypt allar fasteignir útgerðarfélagsins Vísis hf. á Húsavík. Um er að ræða frystigeymslur og vinnslusal fyrirtækisins, skrifstofur, gistiheimili og geymslur, alls um 5 þúsund fermetra.

Sala fasteignanna var tekin í kjölfar ákvörðunar Vísis um að flytja starfsemi sína frá Húsavík til Grindavíkur, en forsvarsmenn Vísis lögðu mikla áherslu á að áfram yrði atvinnurekstur í húsnæðinu.

Með kaupunum mætir Norðlenska þörf fyrirtækisins fyrir aukið frystirými á Húsavík en um leið skapast tækifæri fyrir frekari starfsemi fyrirtækisins á staðnum sem verða tekin til skoðunar á næstu vikum og mánuðum. Starfsmannastjóri Norðlenska mun í framhaldi af kaupunum ræða við þá starfsmenn sem ekki þáðu störf hjá Vísi í Grindavík um möguleika þeirra til vinnu hjá félaginu.

Norðlenska er eitt stærsta og öflugasta framleiðslufyrirtæki landsins á sviði kjötvöru. Fyrirtækið er með starfsstöðvar á Akureyri, Húsavík, í Reykjavík og á Höfn í Hornafirði. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Akureyri einnig stórgripasláturhús og kjötvinnsla. Á Húsavík er sauðfjársláturhús og kjötvinnsla. Fyrirtækið er ennfremur með söluskrifstofu á höfuðborgarsvæðinu og sauðfjársláturhús á Höfn.

Hjá Norðlenska eru um 190 heilsársstörf, þar af eru 45 heilsársstörf á Húsavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×