Bílar

Toyota velur vetni í stað rafmagns

Finnur Thorlacius skrifar
Toyota vetnisbíll.
Toyota vetnisbíll. Autoguide
Japanski bílaframleiðandinn Toyota virðist vera að skipta um stefnu hvað varðar bíla sem ganga eingöngu fyrir öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti. Svo virðist sem vetnisbílar muni taka við af þeim rafmagnsbílum sem Toyota hefur haft í boði undanfarið.

Toyota framleiddi RAV EV jepplinginn sem eingöngu gekk fyrir rafmagni en rafhlöðurnar í þeim bíl voru fengnar frá bandaríska framleiðandanum Tesla. Samningi fyrirtækjanna um þessa framleiðslu hefur nú verið rift og Toyota hyggst hætta framleiðslu á RAV EV.

Í staðinn verður áherslunni beint að framleiðslu vetnisbíla, en Toyota menn telja að með þeim sé kominn betri kostur í framleiðslu bíla sem komast langt á hverri hleðslu. Takmarkanir hvað varða langdrægni rafmagnsbíla séu ekki að skapi kaupenda, en því sé ekki að heilsa hvað varðar vetnisbíla.

Toyota mun þó áfram leggja mikla áherslu á hybrid og plug-in-hybrid bíla, en þeir bílar eru með brunavélar en styðjast einnig við rafmagn. Toyota segir að framleiðsla vetnisbíla sé ódýrari en rafmagnsbíla og því geti þeir verið á lægra verði.

Síðustu 20 ár hefur Toyota lagt mikla fjármuni í að þróa rafmagnsbíla og því kemur þessi ákvörðun mörgum á óvart. Einn liður í þessari þróun Toyota var að fjárfesta fyrir 6 milljarða í Tesla fyrirtækinu og var sú ákvörðun ekki alslæm, en í dag eru þessi hlutabréf Toyota í Tesla tíu sinnum meira virði en við kaupin.

Toyota ætlar sér mikla hluti með vetnisbíla í Kaliforníu í Bandaríkjunum og hefur nú þegar fjárfest í hleðslustöðvaneti sem verið er að setja upp þar víða um fylkið. 






×