Innlent

Endurnýjun hjá þingflokki Pírata

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jón Þór Ólafsson mun stíga til hliðar að ári liðnu.
Jón Þór Ólafsson mun stíga til hliðar að ári liðnu.
Jón Þór Ólafsson Pírati ætlar að hætta þingmennsku að ári liðnu.

Ásta Helgadóttir sem skipaði annað sæti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir síðustu þingkosningar mun taka sæti á Alþingi í hans stað.

Aðrir þingmenn Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson og Birgitta Jónsdóttir, munu ekki bjóða sig fram aftur að þessu kjörtímabili liðnu og því er ljóst að mikil endurnýjun verður á þingflokki Pírata á næstu árum.

Birgitta fer ekki fram því hún er þeirrar skoðunar að þingmenn eigi ekki að sitja lengur en átta ár. „Ég er henni sammála því menn verða óskaplega fastsetnir eftir átta ár á þingi; það sér maður skýrt á Alþingi hjá þingmönnum með langan starfsaldur," sagði Jón Þór við Fréttablaðið, sem kveðst aðeins á þingi til að ná fram markmiðum Pírata.

Jón Þór segir í samtali við Vísi að mikilvægt sé að glata ekki allri reynslu úr þingflokknum þegar til næstu alþingiskosninga kemur og er það meðal ástæðna þess að Ásta Helgadóttir kemur inn á miðju kjörtímabili. „Ásta er náttúrulega ung en hefur nú tvö ár til að sanna sig,“ segir Jón Þór kíminn.

Hann segir styrkleika sína, sem felast meðal annars í því að kortleggja „hvar valdið liggur“ í íslenskum stjórnmálum, hafa nýst vel á þeim tíma sem hann hefur setið á þingi. Hann býst við því að fara að starfa aftur við malbikun að þingstörfum loknum. „Það er góður staður til að hugsa á,“ segir Jón. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×