Innlent

„Gat ég ekki hugsað mér að sitja aðgerðarlaus“

Arnar Feuerhahn er nú í tuttugu metra hæð í mastri Hvals 8.
Arnar Feuerhahn er nú í tuttugu metra hæð í mastri Hvals 8. visir/jjk
Þýskur aðgerðasinni kom sér fyrir í mastri Hvals 8 í Reykjavíkurhöfn á fimmta tímanum í morgun til að mótmæla hvalveiðum Íslendinga. Hvalur hf. ætlar ekki að hafa afskipti af manninum sem hyggst dvelja í mastri skipsins í 48 klukkustundir.

Arnar Feuerhahn, 32 ára gamall Þjóðverji frá Berlín, vill með stöðutöku sinni í mastri Hvals 8, mótmæla veiðum hvalveiðifyrirtækis Kristjáns Loftssonar á langreyði. Hvalur hf. mun hefja hvalveiðar síðar í júní og hefur leyfi til að veiða 154 langreyðar á þessu ári.

„Ég kom til Íslands fyrir 10 dögum sem ferðamaður frá Berlín og ferðaðist um landið. Þegar ég komst að því að enn eru stundaðar veiðar á langreyði hér á landi af Kristjáni Loftssyni, þá gat ég ekki hugsað mér að sitja aðgerðarlaus.“

Hinn 32 ára Berlínarbúi hyggst dvelja í mastri Hvals 8 í það minnsta í 48 klukkustundir. Feuerhahn sagðist kvíða fyrir niðurförinni enda lofthræddur með eindæmum. Mastur skipsins er í um 20 metra hæð. Halldór Gíslason hjá Hvali hf. segir að fyrirtækið ætli ekki að hafa afskipi af manninum.

„Ég hef svo sem enga skoðun á því að þessi maður sé þarna uppi að mótmæla,“ segir Halldór Gíslason.

„Hann fer þarna upp á engum forsendum og hefur ekki leyfi að fara um borð í skipið. Hann er að biðja um athygli en við ætlum bara að láta hann eiga sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×