Innlent

Konur oftast strikaðar út í Reykjavík - Júlíus Vífill með flestar útstrikarnir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rúmlega helmingur allra þeirra kjósenda sem strikuðu yfir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum á laugardaginn strikuðu yfir Júlíus Vífil Ingvarsson sem skipaði annað sæti listans.

Frá þessu greinir Kjarninn í dag.

Alls strikuðu 463 kjósendur Sjálfstæðisflokks hann út af listanum, eða 3,3 prósent kjósenda flokksins og er hann sá frambjóðandi sem hlaut flestar útstrikanir allra frambjóðenda til borgarstjórnar í ár. Flestar breytingar voru gerðar á lista Sjálfstæðisflokksins, alls 876 en næst flestar á lista Samfylkingarinnar þar sem útstrikanirnar voru 316.

Athygli vekur að á listum annarra framboða en Sjálfstæðisflokksins er mest strikað yfir konur. Björk Vilhelmsdóttir hjá Samfylkingunni var alls strikuð út 138 sinnum, Sóley Tómasdóttir var með 112 útstrikanir meðal kjósenda Vinstri Grænna, 52 strikuðu út Ilmi Kristjánsdóttir hjá Bjartri Framtíð og Þórlaug Ágústsdóttir Pírati var strikuð út 14 sinnum.

0,63 prósent Framsóknarmanna og flugvallarvina strikuðu út oddvita flokksins, Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttir en hún hlaut alls 36 útstrikanir.

Útstrikanir á listum framboða í borgarstjórnarkosningunum í ár höfðu þó engin áhrif á endanleg úrslit.

Hér má sjá nánari útlistun á útstrikunum.Mynd/kjarninn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×