Viðskipti innlent

Embætti Seðlabankastjóra laust til umsóknar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Staða Más Guðmundssonar hefur nú verið auglýst.
Staða Más Guðmundssonar hefur nú verið auglýst. Visir/Anton
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur auglýst embætti seðlabankastjóra Seðlabanka Íslands laust til umsóknar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu sem send var út í dag en umsóknarfrestur er til föstudagsins 27. júní 2014.

Fjármála- og efnahagsráðherra skipar seðlabankastjóra Seðlabanka Íslands til fimm ára í senn og aðeins er hægt að skipa sama mann seðlabankastjóra tvisvar sinnum. „Seðlabankastjóri skal fullnægja almennum starfsgengisskilyrðum skv. 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins,“ eins og fram kemur í tilkynningunni

Már Guðmundsson hefur verið seðlabankastjóri frá miðju ári 2009 og rennur skipunartími hans út 20. ágúst næstkomandi.

Fjármála- og efnahagsráðherra tilkynnti í febrúar síðastliðnum að endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands stæði fyrir dyrum og var stofnaður starfshópur í kjölfarið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafði gert því skóna um miðjan febrúar, í þættinum Sunnudagsmorgunn á RÚV, að seðlabankastjórum yrði jafnvel fjölgað um tvo. Slíkar breytingar á lögum um Seðlabankann hafa ekki verið gerðar enn og því verður nýr seðlabankastjóri, Már Guðmundsson eða annar, ráðinn á grundvelli gildandi laga sem segja til um að Seðlabankinn sé með einn seðlabankastjóra sem skipaður er sem fyrr segir til fimm ára. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×