Bílar

Ford Escape mest stolið

Finnur Thorlacius skrifar
Ford Escape eigendur í Bandaríkjunum ættu að vera varir um sig.
Ford Escape eigendur í Bandaríkjunum ættu að vera varir um sig.
Ford bílar virðast einkar vinsælir meðal þjófa í Bandaríkjunum því ekki bara er Ford Escape sá bíll sem oftast er stolið heldur eru Ford Edge og Ford Explorer í öðru og þriðja sæti. Þetta kemur fram í skýrslu National Insurance Crime Bureau þar vestra.

Könnun þeirra nær til tímabilsins janúar 2010 til desember 2013. Á þeim tíma var 1.421 Ford Escape jepplingum stolið, 1.140 Ford Edge bílum og 958 Ford Explorer jeppum. Það er svo Jeep Grand Cherokee jeppinn sem er fjórða vinsælastur með bílþjófa en 912 slíkum bílum var stolið.

Í fimmta sæti var svo Kia Sorento jeppinn, þá Chevrolet Traverse og Nissan Qashqai, Honda CR-V. Toyota RAV4 og Chevrolet Equinox fylla svo flokk 10 vinsælustu bílanna hjá bílaþjófum. Þjófarnir virðast því afar sólgnir í jeppa og jepplinga, enda kosta þeir almennt meira en fólksbílar.

Flestum bílum er stolið í Kaliforníu, enda er það fjölmennasta ríki Bandaríkjanna. Næst flestum bílum er stolið í Flórída og þar á eftir í Michigan. Ennfremur kemur fram að flestum bílum er stolið í og í nágrenni við stærstu borgirnar og eru bílþjófnaðir tíðir í New York og Los Angeles. 







×