Innlent

Ákærður fyrir tilraun til manndráps í Ólafsfirði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Árásin átti sér stað í heimahúsi við Aðalgötu í bænum.
Árásin átti sér stað í heimahúsi við Aðalgötu í bænum. VISIR/GK
Ríkissaksóknari hefur ákært karlmann á þrítugsaldri fyrir tilraun til manndráps í kjölfar árásar í Ólafsfirði þann 30. júní árið 2012.

Árásin átti sér stað í heimahúsi við Aðalgötu í bænum og var fyrirtaka í málinu nú síðastliðinn miðvikudag.

Manninum er gefið að sök að hafa stungið mann um tvítugt alls fjórum sinnum; ; í vinstri öxl, ofarlega hægra megin í brjóstkassa, við hægri mjaðmarspaða og neðarlega í hægri síðu með þeim afleiðingu að hnífurinn smaug í gegnum kviðvegg og inn í lifrina.

Fyrir vikið hlaut fórnarlambið blæðingu á lifur sem getur leitt til dauða ef ekki er brugðist við með skjótum hætti. Skjót viðbrögð urðu þó til þess að maðurinn var ekki talinn í lífshættu eftir að hann komst undir læknishendur á Akureyri.

Árásin orsakaði einnig þriggja til fjöggurra sentímetra langa stunguáverka á hægri brjóstkassa, álíka langan skurð á hægri síðu og aðra minni áverka á fyrrgreinda líkamshluta.

Er maðurinn krafinn um eina milljón króna í skaðabætur og verði hann fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi. Búist er við því að aðalmeðferð málsins hefjist í Héraðsdómi Norðurlands Eystra á Akureyri þann 16. september næstkomandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×