Bílar

Kaupa Indverjar Saab?

Finnur Thorlacius skrifar
Saab 9-3 Aero
Saab 9-3 Aero
Svo virðist sem enn ein eigendaskiptin gætu orðið á sænska bílaframleiðandanum Saab. Það er indverski bílaframleiðandinn Mahindra & Mahindra, ásamt öðrum ónefndum asískum bílaframleiðanda sem hyggst nú kaupa Saab af núverandi eiganda, National Elecrtric Vehicle Sweden (NEVS).

Svo virðist sem NEVS hafi reist sér hurðarás um öxl með því að hefja aftur framleiðslu á Saab 9-3 bílnum sem meiningin var svo í framhaldinu að gera að rafmagnsbíl. Fyrirtækið lenti fljótlega í fjárþurf þar sem aðrir fjárfestar sem ætluðu í upphafi að koma einnig að framleiðslunni hrukku úr skaftinu.

Mahindra & Mahindra sér kaupin á Saab sem stystu leið til að eignast lúxusbílamerki. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Mahindra & Mahindra ber í víurnar í Saab, en fyrirtækið var eitt þeirra sem lýsti yfir áhuga á kaupum á því áður en NEVS eignaðist Saab.

Heyrst hefur að Mahindra & Mahindra hafi síðan beðið á kantinum eftir því að NEVS lenti í kröggum með Saab og bíði eins og gammur eftir því að eignast það fyrir lítið fé. 







×