Jeppe Hansen mun yfirgefa herbúðir Stjörnunnar þegar samningur hans við Stjörnuna rennur út um mánaðamótin.
Þetta staðfesti Victor Ingi Olsen, stjórnarmaður í knattspyrnudeild félagsins, í samtali við Vísi í dag.
„Það lá alltaf fyrir að hann væri hjá okkur í aðeins þennan tíma því hann ætlaði sér alltaf að halda áfram að spila í Danmörku,“ sagði Victor Ingi en Hansen hefur samið við danska B-deildarliðið Fredericia.
„Hann leit á Íslandsdvölina sem tækifæri til að koma sér almennilega í gang fyrir tímabilið úti og þó svo að það sé auðvitað fúlt að missa hann þá eigum við fullt af góðum strákum hér í Stjörnunni.“
Hansen var ætlað það hlutverk að fylla í skarð Garðars Jóhannssonar sem hefur verið að glíma við meiðsli en nú styttist í endurkomu hans. „Garðar hefur oft verið ágætur,“ bætir Victor Ingi við.
Hansen hefur skoraðö þrjú mörk í sjö leikjum Stjörnunnar í vor.
