Íslenski boltinn

Nýi mark­vörður KA kom snemma inn af bekknum í fyrsta leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
William Tönning er mættur á Akureyri.
William Tönning er mættur á Akureyri. KA

William Tönning hefur samið við KA og lék sinn fyrsta leik með liðinu þegar leikið var til úrslita í Kjarnafæðismóti karla í fótbolta.

Eftir að síðasta tímabili lauk – þar sem KA stóð í fyrsta sinni uppi sem bikarmeistari – urðu breytingar á markmannstvíeyki félagsins. 

Steinþór Már Auðunsson, betur þekktur sem Stubbur, er enn á Akureyri en Kristijan Jajalo ákvað að færa sig um set og hélt til Austurríkis. Þar með var ljóst að KA vantaði markvörð. 

Hinn reynslumikli Jonathan Rasheed gekk til liðs við félagið. Sá er með reynslu úr efstu deild í Svíþjóð og var meðal annars á mála hjá BK Häcken frá 2017 til 2022. Hann gerði tveggja ára samning en meiddist illa stuttu eftir komu sína á Akureyri. Því þurfti KA enn á ný að hefja leit að markverði. Þeirri leit er nú lokið.

Hinn 25 ára gamli Tönning er danskur markvörður sem hefur spilað víða á ferli sínum. Hann kemur frá sænska félaginu Ängelholms en hefur einnig spilað í Bandaríkjunum, Nýja-Sjálandi og Færeyjum.

Hann lék í kvöld sinn fyrsta leik fyrir félagið en Stubbur fór meiddur af velli þegar KA mætti Þór Akureyri í úrslitum Kjarnafæðismótsins. Jóan Símun Edmundsson og Valdimar Logi Sævarsson fóru einnig meiddur af velli snemma í leiknum.

Ibrahima Balde fékk beint rautt spjald í liði Þórs í upphafi síðari hálfleiks. Einum færri héldu Þórsarar út og því þurfti vítaspyrnukeppni til að útkljá leikinn. Þar reyndust Þórsarar sterkari og sigruðu Kjarnafæðimótið 2025.

Bikarmeistarar KA mæta KR í 1. umferð Bestu deildar karla þann 6. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×