Viðskipti innlent

Ferðir tólf þúsund farþega Icelandair í uppnámi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðjón Arngrímsson.
Guðjón Arngrímsson. Vísir/Heiða
Icelandair hefur fellt niður 65 flug félagsins mánudaginn 16. júní, vegna sólarhringsverkfalls Flugvirkjafélags Íslands, sem stendur frá kl. 06.00 til kl. 06.00 næsta morguns. Þetta eru öll flug Icelandair þennan dag, nema þau flug sem hefjast erlendis síðdegis 16. júní og lenda á Keflavíkurflugvelli að morgni 17. júní. Listi yfir niðurfelld flug er á Icelandair.is. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Samningafundi flugvirkja við Samtök atvinnulífsins lauk um þrjúleytið í dag án árangurs. Flugvirkjar höfðu boðað til vinnustöðvunar á mánudag en til allsherjarverkfalls kemur fimmtudaginn 19. júní náist ekki samningar fyrir þann tíma.

Í tilkynningunni frá Icelandair segir að ákvörðun um að fella niður flugin með þessum fyrirvara hafi verið tekin til þess að eyða óvissu og gefa farþegum tækifæri á því að gera nauðsynlegar ráðstafanir. Í heild hafi aðgerðirnar áhrif á ferðir um 12 þúsund farþega sem langflestir séu erlendir ferðamenn. Upplýsingum sé komið til þeirra eftir fremsta megni m.a. með textaskilaboðum og tölvupósti. Mikið álag er á þjónustuveri félagsins.

„Þetta eru okkur mikil vonbrigði. Samningum er lokið við yfir 95% af starfsfólki Icelandair Group og flugvirkjum standa til boða sambærilegar kjarabætur og samstarfsmenn þeirra hafa nýlega samið um. Í þeirri stöðu er útilokað fyrir félagið að ganga að ítrekaðri kröfu flugvirkja um margfalt meiri hækkun launa en aðrir hafa fengið. Viðræður hafa engan árangur borið. Við neyðumst því til þess að taka strax í dag ákvörðun um að fella niður allt flug á mánudag. Við biðjum viðskiptavini félagsins velvirðingar á þeirri miklu röskun sem verkfallið veldur og gerum allt sem í okkar valdi stendur þeim til aðstoðar," segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Icelandair mun í dag og um helgina reyna eftir fremsta megni reyna að leysa úr vanda farþega m.a. með því að flytja þá yfir á flug annarra flugfélaga eins og hægt er, einnig að færa farþega á önnur flug Icelandair til og frá áfangastöðunum ef það er unnt, eða breyta farmiðum með öðrum hætti. Þeir sem hætta við ferð sína munu fá endurgreitt. Aukaflugum hefur verið bætt við áætlun félagsins á sunnudag og þriðjudag til þess að mæta álaginu að því er segir í tilkynningunni.

„Áhrif eins sólarhrings verkfalls eru mun meiri nú um miðjan júní en fyrir mánuði síðan, þar sem háannatími ferðaþjónustunnar er genginn í garð og flug hefur verið aukið til muna frá því sem þá var og farþegafjöldinn meiri”, segir Guðjón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×