Handbolti

Önnur íþrótt í dag

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sigríður tekur við heiðursverðlaunum sínum.
Sigríður tekur við heiðursverðlaunum sínum. Vísir/Getty
„Þetta var frábært afrek á sínum tíma og fjöldi aðdáenda var eftir því. Það var ótrúlega gaman að taka þátt í þessu ævintýri,“ sagði Sigríður Sigurðardóttir, fyrrverandi handboltakona og Íþróttamaður ársins, þegar Vísir heyrði í henni í dag.

Sigríður var hluti af liði Íslands sem varð Norðurlandameistari fyrir 50 árum síðan. Á úrslitaleikinn mættu rúmlega 4000 manns sem er áhorfendamet á kvennaleik á Íslandi sem enn stendur í dag, 50 árum síðar.

„Það var ansi margt gert fyrir okkur. Æfingaraðstaðan var ekki nægilega góð svo við fórum og æfðum upp á Keflavíkurflugvelli. Þar kom samheldnin, við vorum allar í mismunandi liðum en kynntumst í rútunni. Í Keflavík æfðum við þrek sem var óþekkt á þeim tíma.“

„Það var ótrúlega gaman þegar maður var að keppa að horfa upp í stúku og sjá fólk í öllum sætunum. Þetta var yndislegur tími og það er gríðarlega gaman að rifja þetta upp.“

Stór hluti hópsins mætti á blaðamannafund HSÍ þar sem leikmennirnir voru heiðraðir fyrir þátttöku sína.

„Við erum eins og lítil fjölskylda og við hittumst sífellt oftar. Það er gaman að rifja upp sögur og skoða myndir. Við upplifðum þetta allar á sinn hátt og það er gaman að heyra sögur frá öllum sjónarmiðum.“

Gríðarleg breyting hefur orðið á handboltanum frá því þegar liðið varð Norðurlandameistari. Úrslitaleikurinn fór fram á grasi og spiluðu leikmenn í takkaskóm.

„Það var spilað á grasi eða malarvelli, það var betra að spila á grasinu en það er stór munur á þessu. Það er mun meiri hraði í dag og mun meira af tæknilegum hlutum. Fólki er hent útaf fyrir eitthvað smávægilegt.“

„Hraðinn er orðinn allt of mikill, að mörkin skuli fara yfir 30 er of mikið. Þetta er ekkert skylt því sem ég þekki, þetta er önnur íþrótt,“ sagði Sigríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×