Körfubolti

Phil Jackson byrjaður að hreinsa til hjá New York Knicks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Jackson.
Phil Jackson. Vísir/Getty
NBA-körfuboltaliðin New York Knicks og Dallas Mavericks hafa komist að samkomulagi um að skipta á sex leikmönnum og það er ljóst að Phil Jackson er byrjaður að hreinsa til í herbúðum Knicks-liðsins.

New York Knicks fékk miðherjann Sam Dalembert og bakverðina Jose Calderon, Shane Larkin og Wayne Ellington frá Dallas en í staðinn fara þeir miðherjinn Tyson Chandler og leikstjórnandinn Raymond Felton til Mavericks-liðsins.

New York Knicks fékk einnig tvo valrétti frá Dallas í kaupbæti en þeir eru báðir í annarri umferð nýliðavalsins sem fer fram í kvöld. New York Knicks fær því 34. og 51. valrétt í kvöld en sá fyrri gæti skilað félaginu góðum leikmanni samkvæmt heimildum ESPN.

Þetta er fyrsta stóra breytingin á leikmannahópi New York Knicks síðan að Phil Jackson tók við stjórninni hjá félaginu en hann var mjög spenntur fyrir að krækja í spænska bakverðinn Jose Calderon sem Jackson finnst smellpassa inn í þríhyrningssóknina.

Phil Jackson gerði Chicago Bulls og Los Angeles Lakers ellefu sinnum að NBA-meisturum á sínum tíma en þessi sigursælasti þjálfari allra tíma reynir sig nú í fyrsta sinn við stjórnunarstöðu hjá NBA-liði.

Tyson Chandler, sem er orðinn 31 árs gamall, mun því snúa aftur til Dallas Mavericks þar sem hann varð NBA-meistari árið 2011. Chandler hætti hjá Dallas eftir meistaratímabilið og skrifaði undir fjögurra ára samning við New York Knicks sem skilaði honum 60 milljónum dollara.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×