Fótbolti

Fimm leikir í Pepsí deild karla í dag

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Heldur gott gengi Stjörnunnar áfram
Heldur gott gengi Stjörnunnar áfram vísir/vallir
Stjarnan getur komist á topp Pepsí deildar karla í fótbolta í dag þegar liðið fær Fjölni í heimsókn. Topplið FH leikur ekki fyrr en á morgun en fimm leikir eru á dagskrá í dag.

Botnlið ÍBV fær Íslandsmeistara KR í heimsókn til Eyja klukkan 17 en ÍBV er enn án sigurs í deildinni í átta leikjum. ÍBV vann Val í bikarnum í vikunni og verður spennandi að sjá hvort liðið nái að fylgja því eftir gegn KR-liði sem virðist vera að rétt úr kútnum eftir erfiða byrjun á mótinu.

Á sama tíma mætast Þór og Valur en Þór er í næst neðsta sæti deildarinnar. Val hefur skort þann stöðugleika sem þarf til að blanda sér í toppbaráttuna en Þór náði óvænt í stig í Kaplakrika í síðustu umferð og er sýnd veiði en ekki gefin.

Þrír leikir hefjast klukkan 19:15. Fylkir fær spútniklið Keflavíkur í heimsókn í Lautina. Víkingur tekur á móti Breiðabliki sem er líkt og ÍBV á höttunum eftir fyrsta sigri sínum í deildinni.

Fjölnir hefur tapað tveimur leikjum í röð eftir frábæra byrjun á tímabilinu og tapi liðið þriðja leiknum í röð fer Stjarnan á topp deildarinnar. Stjarnan er með 16 stig, tveimur stigum á eftir FH sem sækir Fram heim á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×