Sport

Ísland enn í öðru sæti

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Kári Steinn í 5000 metra hlaupinu í gær
Kári Steinn í 5000 metra hlaupinu í gær mynd/gunnlaugur júlíusson
Annar keppnisdagur er hafinn í Tiblisi í Georgíu þar sem keppt er í 3. deild Evrópukeppni landsliða í frjálsum íþróttum. Íslensku keppendurnir hafa farið ágætlega af stað í morgun og er liðið enn í öðru sæti.

Tvö efstu liðinu fara upp í 2. deild og því mikilvægt að falla ekki neðar en annað sætið. Úrslit úr fjórum greinum af 19 eru komnar nú í morgunsárið auk þess að fengist hefur staðfest að Kári Steinn Karlsson hafnaði í þriðja sæti í 5000 metra hlaupi í gær á tímanum 14:55,02 mínútum.

Vigdís Jónsdóttir keppti fyrst í morgun og hafnaði í þriðja sæti í sleggjukasti kvenna. Hennar lengsta kast var 52,12 metrar.

Ásdís Hjálmsdóttir heldur áfram að hala inn stig fyrir Ísland en hún varð í öðru sæti í kúluvarpinu með kast upp á 14,28 metra.

Einar Daði Lárusson var fimmti í 110 metra grindarhlaupi. Hann hljóp á 14,70 sekúndum og var á undan keppandanum frá Ísrael.

Kristín Birna Ólafsdóttir gerði ekki síður vel í 100 metra gindarhlaupi kvenna. Hún skilaði sér í mark á 14,14 sekúndum og varð önnur.

Bráðabirgðareikningar eru birtir á mbl.is sem er með mann í Georgíu og hefur Ísland aukið forskot sitt á Ísrael í öðru sæti. Kýpur er efst með 317,5 stig. Svo kemur Ísland með 306 en Ísrael þar á eftir með 291,5 stig.

Taka ber þessum tölum með fyrirvara því staðhaldarar hafa átt í miklum vandræðum með að skila úrslitum rétt og fljótt af sér. Til að mynda voru tvenn úrslit frá því í gær leiðrétt í morgun. Hafdís Sigurðardóttir endaði í öðru sæti í 400 metra hlaupi kvenna en vann ekki eins og greint var frá í gær og Trausti Stefánsson féll úr 3. sæti í það fjórða í 400 metra hlaupi karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×