Viðskipti innlent

Tvö kísilver að komast í höfn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Vonir standa til að smíði kísilvera í Helguvík og á Húsavík verði staðfest innan tveggja vikna með því að öllum fyrirvörum vegna samninga verði aflétt. Jarðvegsframkvæmdir vegna kísilvers United Silicon í Helguvík hófust reyndar í maímánuði en áður hafði Landsvirkjun skýrt frá því að orkusamningur lægi fyrir. Þá hefur Landsvirkjun sett í gang undirbúningsframkvæmdir við orkuver á Þeistareykjum vegna fyrirhugaðs kísilvers PCC á Bakka við Húsavík.

Hvorugt þessara verkefna er hins vegar í höfn en í viðtali við Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, á Stöð 2 í síðasta mánuði kom fram að enn ætti eftir að aflétta fyrirvörum vegna þessara samninga. Fyrirvörum vegna Helguvíkur átti að aflétta í maímánuði og stærstum hluta fyrirvara vegna Bakka nú í júní. Hörður tók þó fram að reynslan hefði sýnt að þetta geti hliðrast um einhverja mánuði en það réðist algerlega af viðsemjendum Landsvirkjunar.

Samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2 er nú stefnt að því að fyrirvörum vegna kísilvers United Silicon í Helguvík verði aflétt jafnvel fyrir lok þessarar viku. Af kísilverinu á Húsavík er það að frétta að von er á ráðamönnum PCC til landsins í byrjun júlímánaðar og standa vonir til þess að fyrir miðjan mánuðinn verði staðfest að framkvæmdir á Bakka fari í gang með haustinu.


Útlitsteikning af kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík.Grafík/United Silicon.
Vélarhljóðin eru hins vegar þegar farin að heyrast um Suðurnesin en í Helguvík er þessa dagana verið að fleyga klöppina á grunninum þar sem líklegt er að fyrsta kísilverið muni rísa, af hugsanlega fjórum verksmiðjum í þessum geira á Íslandi á næstu árum. Þar er gert ráð fyrir að kísilframleiðslan hefjist eftir tæp tvö ár, í byrjun sumars árið 2016.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×