Innlent

Bolungarvík kærir skemmdarverkin

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Eins og myndin sýnir eru skemmdirnar sem unnar voru miklar.
Eins og myndin sýnir eru skemmdirnar sem unnar voru miklar. mynd/elías jónatansson
Bæjarfélag Bolungarvíkur mun kæra skemmdarverk á húsi við Aðalstræti 16 sem unnin voru aðfaranótt mánudags. Lagt verður mat á umfang skemmdanna og skaðabótakrafa gefin út á geranda.  Þetta var ákveðið á fundi bæjarráðs í kvöld.

Baldur Smári Einarsson, formaður bæjarráðs, segir að engin ákvörðun hafi þó verið tekin um framtíð hússins, það verði gert um leið og búið verði að meta ástand hússins. „Það er von á sérfræðingi frá minjastofnun í næstu viku sem kemur til með að meta ástandið,“ segir Baldur.

Skemmdirnar sem unnar voru á húsinu í Bolungarvík voru gífurlegar. Ekki liggur fyrir hvaða tæki var notað til að vinna skemmdir á húsinu, og athygli vekur að engin vitni hafi tekið eftir því þegar skemmdirnar voru unnar. Þrjár traktorsgröfur eru í Bolungarvík en í ljósi þess hve gamalt húsið er og illa farið gætu önnur tæki, svo sem lyftarar, hafa verið notuð. Einn hefur réttarstöðu grunaðs í málinu og hefur hann þegar verið yfirheyrður. Honum var þó sleppt að lokinni yfirheyrslu.

Í bókun bæjarfélagsins segir að bæjarfélagið fordæmi þau eignarspjöll sem unnin voru á húsinu, en bæjaryfirvöld hafa á undanförnum mánuðum lagt mikla vinnu og fjármuni í að deiliskipuleggja svæðið sem húsið er hluti af.

Húsið var í eigu Íbúðalánasjóðs en er nú í eigu bæjarfélagsins.  Lengi hafa deilur staðið yfir um húsið sjálft og hvort eigi að rífa það, eða gera það upp. Bæjarins besta sagði frá því í fyrra að Guðrún Stella Gissurardóttir og Soffía Vagnsdóttir hefðu gert bindandi tilboð í húsið. Þær hafi viljað koma upp þar framleiðslu og þjónustu sem byggði á sögunni um landnámskonuna Þuríði sundafylli.



mynd/elías jónatansson
vísir/elías jónatansson

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×