Erlent

Pistorius þróaði með sér óvenju sterk varnarviðbrögð

Randver Kári Randversson skrifar
Oscar Pistorius í réttarsalnum í dag.
Oscar Pistorius í réttarsalnum í dag. Vísir/AFP
Íþróttalæknirinn Wayne Derman, er síðasta vitni verjanda Oscars Pistorius í réttarhöldunum sem nú standa yfir í Suður-Afríku. Derman sagði við réttarhöldin í dag að fötlunin hafi haft mikil áhrif á allt líf Pistorius. Hann hafi jafnframt verið afar hræddur við glæpamenn og hafi þróað með sér óvanalega sterk varnarviðbrögð sem hafi síðan orðið orsök árásinnar á Steenkamp. BBC greinir frá þessu.

Við réttarhöldin er nú deilt um hugarástand spretthlauparans þegar hann skaut kærustu sína Reevu Steenkamp á síðasta ári. Saksóknarinn í málinu heldur því fram að Pistorius hafi skotið Steenkamp af yfirlögðu ráði eftir rifrildi þeirra í milli. Verjandi hans heldur því fram að vegna kvíða sem stafar af fötlun hans þá sýni hann óvanalega sterk viðbrögð við ótta, sem sé orsök þess að hann skaut Steenkamp.

Á mánudag kom fram að hann þjáðist ekki af geðrænum vandamálum þegar hann skaut unnustu sína Reevu Steenkamp .Samkvæmt skýrslu geðlæknis er Pistorius fær um að greina rétt frá röngu og er því talinn sakhæfur.

Í gær kom fram í skýrslu sálfræðings að Pistorius hafi þjáðst af áfallastreituröskun frá því árásin átti sér stað og gæti jafnvel verið í sjálfsvígshugleiðingum.

Pistorius hafði átt í sambandi við fyrirsætuna Reevu Steenkamp í um þrjá mánuði þegar hann skaut hana til bana á heimili sínu síðasta ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×