Erlent

Óhætt að bólusetja börn fyrir alvarlegum sjúkdómum

Randver Kári Randversson skrifar
Vísir/Getty
Samantekt á yfir 20000 rannsóknum á bóluefnum fyrir börn sýna að óhætt er að hvetja foreldra til að láta bólusetja börn sín fyrir hættulegum sjúkdómum.  Fjallað er um málið á vef CNN.

Niðurstöður samantektarinnar, sem birtust nýlega í ritinu Pediatrics, sýna að hættulegar aukaverkanir á bóluefnum eru afar sjaldgæfar. Niðurstöðurnar sýna einnig að engin tengsl eru á milli bólusetninga og aukins fjölda barna með einhverfu, eins og haldið hefur verið fram af andstæðingum bólusetninga í Bandaríkjunum. Einnig kemur fram að engin tengsl eru milli bóluefna og hvítblæðis hjá börnum, eins og fyrri rannsóknir höfðu bent til.

Samantektin staðfesti þó að sum bóluefni geta haft skaðlegar afleiðingar en aðeins í örfáum tilfellum. Til að mynda getur bóluefni við heilahimnubólgu leitt til heiftarlegra ofnæmisviðbragða. Jafnframt sýna rannsóknir að bóluefnið við mænusótt getur aukið líkurnar á ofnæmi fyrir ákveðnum fæðutegundum hjá þeim sem eru með barnaexem.  Þá sýndu sumar rannsóknirnar fram á að MMR bólusetning geti valdið flogum.

Í grein CNN kemur fram að aukinn fjölda foreldra í Bandaríkjunum kýs að láta ekki bólusetja börn sín og er þeirri spurningu velt upp hvort það hafi neikvæð áhrif á almannaheilsu þar í landi. Þar er bent á rannsókn sem sýnir fram á tölfræðilegt samband milli aukins fjölda kíghóstatilfella í Kaliforníu árið 2010 og færri bólusetninga gegn sjúkdómum það ár.

Þá kemur fram að á þessu ári hefur orðið vart við hæstu tíðni mislinga í Bandaríkjunum í 18 ár. Flest tilfelli komu fram hjá Amish-fólki í Ohio-ríki, en sá hópur er að mestu óbólusettur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×