Viðskipti innlent

Fyrirvörum vegna kísilvers í Helguvík aflétt

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Landsvirkjun og United Silicon tilkynntu nú síðdegis að öllum fyrirvörum hafi verið aflétt í raforkusölusamningi vegna kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Fyrirtækin undirrituðu raforkusölusamninginn í mars síðastliðnum en nú hafa öll skilyrði samningsins verið uppfyllt. Hefðbundnir fyrirvarar sneru meðal annars að leyfisveitingum, raforkuflutningssamningum og fjármögnun en Arion banki fjármagnar verkefnið.

Gert er ráð fyrir að verksmiðjan hefji starfsemi í Helguvík á fyrri helmingi ársins 2016 og noti 35 megavött af afli.

„Við höfum síðustu mánuði átt farsælt samstarf við United Silicon og staðfesting raforkusölusamningsins markar merkan áfanga í uppbyggingu kísilmálmiðnaðar á Íslandi,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Verkefnið skiptist í fjóra áfanga og segir Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri United Silicon hf., að um 60 störf muni skapast árið 2016, þegar að fyrsta áfanga er lokið.

„Það er stór áfangi í verkefni okkar að aflétta öllum fyrirvörum í dag. Nú erum við endanlega lagðir af stað með verksmiðju United Silicon í Helguvík, sem hefur verið í undirbúningi undanfarin tvö ár,“ segir Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×