Innlent

„Húsið er nákvæmlega eins og það var í Aðalvík“

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá skoðun hússins í morgun.
Frá skoðun hússins í morgun. Vísir/Hafþór
Húsið í Bolungarvík sem Valdimar Lúðvík Gíslason hefur viðurkennt að hafa skemmt aðfaranótt mánudagsins 7. júlí, er í betra ástandi en haldið var.

Minjavörður Norðvesturlands skoðaði húsið í dag. Sigurður Gíslason skoðaði það einnig en hann fæddist þar árið 1922 og starfaði lengi sem byggingafulltrúi í Kópavogi. Hann mun halda erindi á opnum fundi í félagsheimilinum í Bolungarvík í kvöld, um sögu hússins.

„Þetta er svolítið sérstakt hús. Það er verið að hrópa það út að það sé byggt úr rusli frá Aðalvík. Faðir minn reif húsið 1919 og þá voru tíu ár frá því það var byggt. Mér finnst líklegt að hann hafi sjálfur byggt það upphaflega. Hann var húsasmiður og fluttist til Aðalvíkur sama ár og húsið var byggt, 1909,“ segir Sigurður í samtali við Visi.

„Ég er að giska á það miðað við þær upplýsingar sem ég hef grafið upp, að hann hafi byggt það sjálfur og því var mjög auðvelt fyrir hann að rífa það.“

Sigurður Gíslason fæddist í húsinu á Aðalstræti 16 í Bolungarvík.Vísir/Hafþór
Sama hús og í Aðalvík

Valdimar Lúðvík hélt því fram að húsið ætti engan rétt á staðnum þar sem það hafi verið flutt þangað í pörtum frá Aðalvík. Hann sagði einnig að tvisvar hefði verið byggt við húsið.

Sigurður segir húsið hafa verið byggt í Bolungarvík, nákvæmlega eins og það hafi verið byggt í Aðalvík.

„Húsið er nákvæmlega eins og það var í Aðalvík. Ég er með lýsingu á því úr bók sem Vilmundur Jónsson, landlæknir, skrifaði. Þar er húsinu lýst,“segir Sigurður

„Það er alveg nákvæmlega eins og því er lýst. Varðandi seinni tíma viðbyggingar. Þá er það tómt kjaftæði. Ég veit allt um það því ég fæddist þarna og var þar til ég var átta ára gamall. Það var aldrei byggt við það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×