Lífið

"Hann hljóp upp og niður kirkjugólfið öskrandi“

Ellý Ármanns skrifar
Ljósmyndari: Emilía Björg Björnsdóttir
Patrik Þorvaldsson, starfsmaður Reykjavíkurborgar og Emilía Sigurðardóttir, nemi í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands, giftust laugardaginn 12. júlí síðastliðinn í Dómkirkjunni í Reykjavík.  

Stórglæsileg brúður.
Einbeitti sér að komast til brúðgumans

„Ég man bara þegar hurðirnar opnuðust í kirkjunni, þá hugsaði ég: „Vá hvað það eru margir hérna" en svo náði ég augnsambandi við Patrik og einbeitti mér bara að því að komast til hans," segir Emilía þegar við biðjum hana að rifja upp tilfinninguna þegar hún gekk inn kirkjugólfið þennan mikilvæga dag í lífi fjölskyldunnar. 

„Stefanía Svavarsdóttir söng þrjú lög í athöfninni og Rubin Pollock spilaði undir. Hún er þvílíkt mögnuð söngkona. Við erum mjög heppin að hafa fengið hana til að syngja fyrir okkur. Allir gestirnir voru líka mjög hrifnir af henni sem var sérstaklega ánægulegt," segir Emilía. 

Séra Sigurður Pálsson gifti Emilíu og Patrik í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þessi kirkja á sér stérstakan stað í hjarta brúðarinnar því móðir hennar og faðir giftu sig þar fyrir 32 árum eða þann 12. júní 1982.
Sonurinn sló í gegn

„Ætli sonur okkar, Sigurður, sem verður tveggja ára í ágúst, hafi ekki stolið senunni. Hann stóð sig vel sem hringberi en við vissum ekki alveg hvernig þetta myndi fara miðað við frammistöðu hans á æfingunni fyrir brúðkaupið þar sem hann hljóp upp og niður kirkjugólfið öskrandi, hoppandi og klifrandi yfir túrista," segir Emilía. 

„Systur mínar reyndu að hafa hann hjá sér í sjálfri athöfninni og við vorum ákveðin í að reyna allavegana að fá hann til að koma með hringana til okkar. Hringarnir okkar eru frá Jens og við fengum þá í fallegu lokuðu boxi sem Jens gaf okkur. Drengnum tókst þetta mjög vel og hann reyndi að fela sig undir kjólnum mínum og tók nokkur dansspor upp á altarinu. Það var bara svolítið gaman," segir hún og hlær að uppátækinu.



Kom í veg fyrir að mamma málaði húsið fyrir brúðkaupið

„Veislan var haldin heima í garðinum hjá foreldrum mínum í Fossvoginum. Við höfðum lengi séð fyrir okkur hvað garðurinn væri fullkominn staður og okkur fannst líka frábært að geta fagnað með vinum og vandamönnum á svona einstökum stað en þessi staður hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir okkur bæði."

„Elsku mamma mín stóð sig ótrúlega vel í þessu mikla stressi sem fylgir að gifta elstu dóttur sína og við áttum æðislegan tíma saman við skipulagsvinnuna. Án mömmu og pabba hefði þessi veisla aldrei orðið. Þau gerðu svo miklu meira en við höfðum getað ímyndað okkur. Ég rétt náði að koma í veg fyrir að allt húsið yrði málað upp á nýtt og þá gátum við fókuserað á garðinn. Þau eru stórkostleg og við Patrik erum svo þakklát fyrir að hafa fengið að halda veisluna hjá þeim." 

Frábær skreytinganefnd

„Skreytinganefnd var skipuð og stýrt af ótrúlegum dugnaði af bekkjarsystrum mínum úr Listaháskólanum, Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur, sem unnu myrkranna á milli við að setja upp glimmer veggi og búa til heildarmynd til að skapa rétta stemningu fyrir veisluna." 

„Kristína Aðalsteinsdóttir, myndlistarkona og vinkona okkar var ómissandi í undirbúningnum sem og margir aðrir vinir sem komu saman og hjálpuðu okkur. Við báðum vini okkar um að safna glerkrukkum en það voru yfir 200 krukkur sem söfnuðust."  

„Svo komum við vinkonurnar saman og skreyttum krukkurnar yfir heimsmeistarakeppninni í fótbolta. Þær klipptu svo Lúpínur og Hvönn sem stóðu í stærri glerkrukkum víðsvegar um garðinn en minni krukkum var breytt í luktir sem voru hengdar í trén í bland við ljósaseríur og pappaluktir."

„Brúðkaup er svo miklu meira en bara brúðkaupsdagurinn. Undirbúningurinn fyrir veisluna var líka svo eftirminnilegur og svo margar dásamlegar samverustundir sem við áttum með vinum okkar og fjölskyldu."
Vinir og nágrannar veittu hjálparhönd

„Við höfðum fengið garðhúsgögn lánuð frá ýmsum vinum og ættingjum og viðbót af fallegum blómum og blómakör frá nágrönnum og við dreifðum þessu út um allan garð. Við vorum hvorki með sætaskipan né sitjandi borðhald, sem gerði kasjúal stemningu. Vinkona mín frá Hawaii bjó til boðskortið okkar með mynd af mér og Patrik í lopapeysu þar sem ég er með blómakrans og hann með þverslaufu, sem varð til þess að gestirnir okkar mættu með blómakransa, þverslaufur klæddir í lopapeysur, sem var æðislegt svona úti í garði."

Þegar talið berst að matnum í veislunni segir Emilía: „Múlakaffi sá um allan matinn í veislunni. Jói kom sjálfur með risa úti-wok-pönnu og grillaði þvílíkar kræsingar ofan í gestina. Hann og hans starfsfólk unnu svo fullkomlega og með rétta tímasetningu á allt. Þau skipulögðu matinn eftir stöðvum og voru með Evrópustöð, Asíustöð og desert-stöð. Allir fengu heitan mat og nóg að borða. Það var dásamlegt að fylgjast með þeim vinna."

,,Þegar við löbbuðum út úr kirkjunni spilaði vinur okkar ,,Volare” en við fjölskyldan höfum mikil tengsl við Ítalíu þannig að þetta var svolítið öðruvísi endir á athöfninni en gerist og gengur. Við fórum þaðan beint í myndatöku hjá Arnþóri Birkissyni ljósmyndara í Elliðárdalnum en hann fylgdi okkur allan daginn."
Frábær mynd úr frábærri veislu.
Veislustjórarnir slógu í gegn

Veislustjórar voru bestu vinir okkar Patriks, Sigríður Soffía Níelsdóttir, danshöfundur, og Björn Halldór Helgason, tónskáld og tölvunarfræðinemi, og þau voru hreint út sagt glæsileg. Þau gerðu daginn ógleymanlegan með pakkaðri dagskrá á útisviðinu. Það voru ræður í bland við tónlistaratriði og almenna vitleysu. Þau voru með hláturjóga í byrjun veislunnar, partídanskennslu og heilræðisspjöld til okkar. Þau höfðu meira að segja samið nýjan texta við lagið „Happy” eftir Pharrell Williams um okkur," segir Emilía. 

„Þau bjuggu til myndabingó sem virkjaði alla gestina til að taka skemmtilegar myndir og það virkaði í raun eins og samvæmisleikur allt kvöldið. Fólk fékk mismunandi skipanir um hvað það ætti að mynda og pósta þeim á Instagram með brúðkaups-hashtaginu #emmaogpatti. Það hristi líka veislugesti saman enda var ótrúlega góð stemning í brúðkaupinu.  Við höfðum ekki getað óskað okkur betri teymi en þau tvö."

Emilía Björg Björnsdóttir ljósmyndari tók þessa skemmtilegu mynd af Helga.
Högni og Helgi Björns mættu í veisluna 

„Vinir okkar voru svo ótrúlega sætir og gerðu svo margt til að gera daginn minnisstæðan. Auk þess að flytja einlægar og fallegar ræður til okkar fengu gæsunar- og steggjunarhóparnir Högna í Hjaltalín til að koma sem leynigest til að koma okkur á óvart í veislunni."

„Næst kom Helgi Björnsson en hann breytti veislunni í partí. Hann söng lagið okkar Patriks og við dönsuðum fyrsta dansinn við lagið „Heima” undir berum himni í garðinum heima þar sem ég ólst upp og við byrjuðum fyrst að búa saman sem var æðislegt."

„Ég var með gæsahúð allan tímann. Eftir það byrjaði stuðið enda er Helgi Björns alvöru rokkstjarna og kann að starta partíi. Allir sungu með og dönsuðu með. Helgi var stórkostlegur."

„Til að halda stuðinu uppi kom Daníel Ólafsson eða Danni Delux og þeytti skífum fram á nótt. Hann las alveg stemninguna og spilaði lög sem allir gátu dansað við."

„Veislan var svo ótrúlega skemmtileg að okkur langaði ekkert að fara, enda dönsuðum við tryllt til hálf þrjú um nóttina," segir Emilía.

Brúðkaupsnóttin eftirminnileg

„Þá lá leið okkar hjóna upp á Hótel Natura þar sem við eyddum brúðkaupsnóttinni. Þegar við komum upp á hótel voru vinir okkar búnir að laumast inn og skreyta herbergið með rósablöðum. Svo beið okkar í kampavínskæli kók og hjónabandssæla."

„Nokkrum mínútum síðar var bankað upp á á herberginu þar sem pizzasendill mætti með Dominos pizzu til okkar. Á kassann var búið að teikna stórt hjarta og kveðjur frá bestu vinum okkar.  Okkur þótti vægast sagt vænt um að upplifa hvað vinir okkar þekkja okkur vel og hvað þau lögðu mikið á sig til að koma okkur á óvart. Þau gerðu daginn okkar svo sannarlega ógleymanlegan. Manni hlýnar um hjartarætur við tilhugsunina. Betri dag hefði ekki verið hægt að óska sér. Við svífum um á bleiku skýi."


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.