Íslenski boltinn

Hendrickx: Rétti dómaranum bara spjaldið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/FH.is
Það vakti athygli á Kópavogsvelli í gær þegar Jonathan Hendrickx, leikmaður FH, stóð skyndilega með rauða spjaldið frá dómaranum í höndinni.

Þorvaldur Árnason var þá nýbúinn að vísa Kassim Doumbia af velli en sá síðarnefndi brást illa við og reyndi að toga hönd dómarans niður. Spjaldið féll þá í grasið og Hendrickx tók það upp.

„Ég sá að það lá í grasinu. Ég tók það upp og rétti dómaranum bara aftur spjaldið,“ sagði Hendrickx í samtali við Vísi í dag. „Ég sá nú ekki alveg hvað gerðist en Kassim gerði eitthvað sem hann átti sjálfsagt ekki að gera. Þetta var smá æsingur í hita leiksins.“

Hendrickx fékk reyndar sjálfur að líta rauða spjaldið í fyrri viðureign FH og Neman Grodno frá Hvíta-Rússlandi í 2. umferð forkeppni Evrópudieldar UEFA og missir því af síðari leiknum í Kaplakrika á fimmtudagskvöldið.

„Það er auðvitað svekkjandi en það er ekkert við því að gera núna. Við spiluðum vel í þeim leik og náðum góðum úrslitum,“ sagði hann en honum líður vel eftir að hann samdi við FH fyrr í mánuðinum.

„FH er eins og stór fjölskylda og hér hafa allir tekið mér mjög vel. Ég gerði langan samning [tvö ár] með möguleika á tveimur árum til viðbótar og er því fyrst og fremst að hugsa um að spila vel fyrir FH og vinna titla.“


Tengdar fréttir

Uppbótartíminn: Doumbia sá rautt

Tólftu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu lauk í gær. Hverjir áttu góðan dag og hverjir áttu vondan dag? Hvað segir tölfræðin og hver var umræðan á Twitter? Vísir gerir upp umferðina á léttum nótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×