Viðskipti innlent

Már verður áfram seðlabankastjóri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Már Guðmundsson
Már Guðmundsson Vísir/GVA
Már Guðmundsson hefur verið skipaður næsti bankastjóri Seðlabanka Íslands næstu fimm árin eða til ársins 2019. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Már hefur gegnt stöðunni undanfarin fimm ár eða frá 20. ágúst árið 2009.

Már er fæddur árið 1954. Hann lauk BA-gráðu í hagfræði frá háskólanum í Essex í Englandi árið 1979. Árið 1980 lauk hann svo M-phil.-gráðu í hagfræði frá háskólanum í Cambridge í Englandi. Már var hagfræðingur í Seðlabanka Íslands allt til ársins 1988. Það ár varð Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra og réð Má sem efnahagsráðgjafa sinn.

Már starfaði fyrir ráðherrann allt til ársins 1991. Það ár var hann ráðinn forstöðumaður hagfræðisviðs Seðlabanka Íslands og gegndi því starfi til ársins 1994, þegar hann varð aðalhagfræðingur Seðlabankans. Hann var aðalhagfræðingur til ársins 2004. Már varð síðar aðstoðarframkvæmdastjóri peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel. Hann gegndi því starfi allt þar til hann varð skipaður seðlabankastjóri á Íslandi sumarið 2009.

Alls sóttu tíu um stöðu seðlabankastjóra, sem auglýst var laus til umsóknar 2. júní sl. Í samræmi við ákvæði laga um Seðlabanka Íslands var sérstök matsnefnd skipuð til þess að meta hæfni umsækjenda. Nefndin mat þrjá umsækjendur mjög vel hæfa til þess að hljóta embætti seðlabankastjóra, þá Friðrik Má Baldursson, Má Guðmundsson og Ragnar Árnason.

Umsækjendur um stöðu seðlabankastjóra voru:

Ásgeir Brynjar Torfason

Friðrik Már Baldursson

Haukur Jóhannsson

Íris Arnlaugsdóttir

Lilja Mósesdóttir

Már Guðmundsson

Ragnar Árnason

Sandra María Sigurðardóttir

Yngvi Örn Kristinsson

Þorsteinn Þorgeirsson

Már Guðmundsson, Ragnar Árnason og Friðrik Már Baldursson eru hæfastir til að gegna stöðu seðlabankastjóra.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ákveðið að birta umsögn matsnefndar um hæfni umsækjenda en hún barst ráðuneytinu 17. júlí. sl. Umsögnina má sjá í viðhengi hér að neðan.

Umsækjendur áttu þess kost að koma athugasemdum við umsögn nefndarinnar á framfæri við ráðuneytið. Athugasemdir bárust frá fimm þeirra og óskaði ráðuneytið því eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort hún teldi að athugasemdir umsækjenda gæfu tilefni til þess að nefndin endurskoðaði mat sitt á viðkomandi að því er segir á heimasíðu ráðuneytisins.

Með tölvupósti frá formanni nefndarinnar, dags. 25. júlí sl., var ráðuneytinu tilkynnt að nefndin teldi ekki að umræddar athugasemdir gæfu henni tilefni til að breyta mati sínu á einstökum umsækjendum.

„Eftir að hafa yfirfarið niðurstöður nefndarinnar, hæfnismat um einstaka umsækjendur og bréf nefndarinnar vegna athugasemda umsækjenda er það niðurstaða ráðuneytisins að ekkert í þeim gögnum sé þess eðlis, með hliðsjón af sjónarmiðum um einkalífsvernd umsækjenda, að ráðuneytinu sé óheimilt að birta þau,“ segir á vefsíðu ráðuneytisins.

Hafi ráðuneytið þá jafnframt í huga þau mikilvægu sjónarmið sem lúti að gagnsæi og aðhaldi gagnvart stjórnvöldum við ákvarðanatöku um skipan í þýðingarmikil opinber embætti.


Tengdar fréttir

Embætti Seðlabankastjóra laust til umsóknar

Fjármála- og efnahagsráðherra tilkynnti í febrúar síðastliðnum að endurskoðun laga um Seðlabanka Íslands stæði fyrir dyrum og var stofnaður starfshópur í kjölfarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×