Tónlist

Nýtt lag frá Rökkurró lítur dagsins ljós

Hljómsveitin Rökurró.
Hljómsveitin Rökurró.
Hljómsveitin Rökkurró sendi frá sér smáskífu, The Backbone, sem frumflutt var á tónlistarvefnum The Line of Best Fit í dag.

Í október síðastliðnum gaf Rökkurró frá sér lagið Killing Time, sem var forsmekkur af því sem vænta má af nýrri plötu sveitarinnar sem er væntanleg seinna á árinu.  Eiga bæði lögin það sameiginlegt að vera sungin á ensku sem þykir nokkuð óvanalegt fyrir Rökkurró þar sem á fyrstu tveimur plötum sveitarinnar voru allir textar á íslensku.

Hildur Kristín Stefánsdóttir, söngkona hljómsveitarinnar, segir það að skipta yfir á ensku hafi í raun og veru verið tilraun til þess að gera eitthvað öðruvísi:

„Fyrir tveimur árum þegar ég bjó í Japan talaði ég einungis ensku og japönsku. Ég var sjálf að semja tónlist á meðan ég bjó úti og fannst eðlilegt að það sem ég gerði þar syngi ég á ensku. Svo í raun veru framlengdist þetta bara yfir í Rökkurró, mér fannst þetta áhugaverður vinkill þar sem fleira fólk skyldi textann. Það er hinsvegar erfitt að segja alveg skilið við íslenskuna svo að tvö lög á nýju plötunni fengu að vera á íslensku."

Um upptökur sá Helgi Hrafn Jónsson en Rökkurró hefur unnið nánast sleitulaust að plötunni með Helga síðan í október 2013.

„Við þekktum Helga svolítið áður en við byrjuðum að taka upp með honum og fíluðum það sem hann hafði verið að gera með sóló verkefnið sitt og það sem hann hefur tekið upp með konunni sinni Tinu Dico. Hann hafði eins hlustað á eldra efnið okkar og líkað vel. Við fundum fljótt að við höfðum sömu sýn á þetta verkefni og ákváðum strax að nokkrar grundvallarbreytingar á stefnu hljómsveitarinnar væri þörf. Við ákváðum strax að hafa ekkert selló á plötunni, sem hefur einkennt svolítið hljóminn okkar en ég hef spilað á það samhliða því að syngja. Sömuleiðis vissum við að við vildum bæta ýmsum rafmiðuðum þáttum við tónlistina, t.d. hlóðgervlum og öðru slíku – sem heyrist einmitt vel í nýja laginu.“

Textinn í The Backbone hefur sterka tengingu við Reykjavík, en hljómsveitin er stofnuð og starfar þar. Hildur segir textann fjalla um uppeldishverfi hennar og hvernig sýn hennar á hverfið hefur breyst eftir því sem hún varð eldri.

„Umhverfið hefur breyst ótrúlega mikið á undanförnum árum og ekki bara í mínu hverfi heldur í allri Reykjavík. Þegar maður var yngri horfði maður e.t.v. á líf sitt og umhverfi í meira sakleysi en svo þegar maður eldist sér maður hlutina í nýju ljósi. Oft langar mann bara frekar að halda í gömlu útgáfuna. Þar er ákveðin fegurð sem oft vill tapast þegar maður fer að sjá hlutina eins og þeir raunverulega eru.“

Samhliða því að gefa smáskífuna út rafrænt verða einnig til sölu heimagerð eintök í afar takmörku upplagi en þau voru búin til af hljómsveitinni sjálfri. Á smáskífunni er að sjálfsögðu að finna nýja lagið, The Backbone, en einnig fylgir þar fyrri smáskífan Killing Time auk tveggja remixa.

„Við höfum alltaf verið svolítið do-it-youself band og langaði að komast aftur í þann gír. Ég hugsa að við höfum föndrað meira en margar aðrar hljómsveitir; alltaf gert sérstaka diska til þess að taka með okkur á tónleikaferðalög, saumað töskur o.s.frv. Fyrsta stuttskífan okkar var handgerð og hún landaði okkur samningi við 12 Tóna, svo okkur þykir alltaf vænt um þessi litlu verkefni okkar. Í þetta skiptið var það trommarinnar okkar, Bibbi, sem málaði risastór málverk á pappa sem hann klippti síðan niður og límdi saman. Því er ekkert af þessum 150 eintökum eins og einnig eru þau öll árituð af meðlimum sveitarinnar."

The Backbone kemur formlega út þann 11. ágúst en hægt er að forpanta á iTunes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.