Íslenski boltinn

Ásmundur: Viljum spila við Eyjamenn í hverri viku

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Fylkisvelli skrifar
Ásmundur Arnarsson þjálfari Fylkis og aðstoðarmaður hans Haukur Ingi Guðnason.
Ásmundur Arnarsson þjálfari Fylkis og aðstoðarmaður hans Haukur Ingi Guðnason. Vísir/Daníel
Fylkismenn unnu 3-1 sigur á ÍBV í 14. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld og þjálfari liðsins Ásmundur Arnarsson vill helst spila við Eyjamenn í hverri umferð.

„Hver leikur og hvert stig er auðvitað mikilvægt í þessari baráttu. Fylkisliðið mætti tilbúið til leiks og lögðu líf, limi og sál í leikinn og það skilaði sér í þremur stigum,“ sagði Ásmundur Arnarsson þjálfari Fylkis.

„Í þessari baráttu þá snýst þetta ekki um að spila flottasta fótboltann heldur skora mörkin, vinna leikina og hirða stigin.

„Þetta var mikill baráttuleikur. ÍBV er með gott lið sem er búið að vera á ágætis skriði í deildinni og við vissum að þetta yrði erfiður leikur og það er því mun sætara að klára þetta svona,“ sagði Ásmundur sem kann vel við að leika við ÍBV því Fylkir vann fyrri leik liðanna í sumar einnig 3-1.

„Við viljum spila við þá helst í hverri viku,“ sagði Ásmundur léttur sem fagnaði því líka að fá Albert Brynjar Ingason inn í liðið.

 

„Hann er mjög mikilvægur. Mikilvægur fyrir liðið og fyrir hópinn. Það er mjög sterkt fyrir okkur að fá hann inn í þetta.“

Agnar Bragi Magnússon fór af leikvelli í hálfleik en hann skoraði fyrsta mark leiksins.

„Þetta er fyrsti byrjunarliðsleikurinn hans og hann er ekki í besta hlaupastandinu. Það er ágætt að skipta því á milli hans og Gústa (Kjartans Ágústs Breiðdal) sem er búinn að vera í langtíma meiðslum líka. Þetta var nokkurn vegin skipulagt fyrirfram svona,“ sagði Ásmundur sem kom byrjunarlið ÍBV nokkuð á óvart.

„Já, þeir gerðu nokkrar breytingar á sínu liði sem kom mér aðeins á óvart en ekkert þannig að það skipti sköpum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×