Fótbolti

Marta skoraði tvö þegar Sara Björk og félagar komust áfram í bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Vísir/Getty
Sara Björk Gunnarsdóttir og félagar hennar í Rosengård komust áfram í sænska bikarnum í kvöld eftir 12-1 stórsigur á neðrideildarliðinu Stattena. Sara Björk sat á bekknum að þessu sinni og fékk hvíld fyrir lokasprettinn í baráttunni um sænska meistaratitilinn.

Sara Björk, sem er fyrirliði Rosengård, fékk því ekki að spila fyrsta leik brasilíska knattspyrnudrottningarinnar Mörtu Vieira Da Silva en Marta var í byrjunarliði Rosengård í fyrsta sinn í kvöld. Marta kom til Rosengård-liðsins þegar lið hennar, Tyresö, fór á hausinn, fyrr á þessu ári.

Marta skoraði tvö mörk í leiknum í kvöld en hin hollenska Kirsten van de Ven var með þrennu. Anja Mittag og fyrirliði liðsins í kvöld, Ramona Bachmann, skoruðu tvö mörk hvor en hin mörkin gerðu þær Sarah Mellouk, Erica Ekelund og Katrin Schmidt.

Þetta var 2. umferð sænsku bikarkeppninnar 2014-15 en henni líkur ekki fyrr en á næsta ári. Úrslitaleikur bikarkeppninnar 2013-14 fer fram í þessari viku og þar mætast Linköping og Kristianstad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×